Dauði Bowie kom mjög á óvart

Mynd með færslu
 Mynd: litreactor.com

Dauði Bowie kom mjög á óvart

11.01.2016 - 09:34

Höfundar

„Þetta er bara sjokk, ég var að kaupa nýju plötuna hans,“ segir Halldór Ingi Andrésson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, sem er mikill aðdáandi Davids Bowie. Hann segir að Bowie hafi tekið við af Bítlunum í því að vera á undan öðrum í tónlist.

Greint var frá dauða Bowie í morgun en hann var nýorðinn 69 ára. Banamein hans var krabbamein sem hann greindist með fyrir átján mánuðum. Barátta hans fór ekki hátt og fáir vissu af veikindunum enda gaf hann út plötu á afmælisdaginn, 8. janúar, sem nefnist Blackstar. Halldór segir að það sé tímamótaplata. „Hún er rosaleg, eitt nývirkið í viðbót. Þetta er jazzplata, hún er ekkert auðveld en þetta er tímamótaplata og hún er þarna uppi með plötum á borð við Low, Station to station og highway,“ segir Halldór og telur jafnvel að hún sé með hann bestu plötum. Þar sé hún í góðum félgsskap Hunky Dory sem kom út 1971 og Scary monsters 1980. 

Keypti fyrstu plötuna í Fálkanum 1969

Halldór hefur verið aðdáandi Bowie í tæpa fjóra áratugi, alveg frá því að hann keypti fyrstu plötuna jólin 1969. „Hún hét þá David Bowie og var önnur platan hans. Fyrsta platan sást ekki fyrr en löngu seinna. Þetta var platan sem Space Oddity var á. Þetta var líklega jólin 1969, ég keypti hana í Fálkanum. Og þetta er ein af æskumyndunum sem ég á, mamma tók mynd af mér þar sem ég var að lesa textana á plötunni.“ 

Bowie tók við af Bítlunum

Bowie var fyrirmynd margra í tónlist og leiddi ýmsar stefnur. „Hann átti fyrirmyndir í pönkinu, hann var fyrirmynd margra þar. Hann tekur við Bítlunum í því að vera á undan öðrum með músík. Tekur við því hlutverki og hefur verið í því þangað til hann lætur sig hverfa. Það eru flestir með tíu lög sem þeir þekkja. Það eru það örugglega allir. Þetta er heil mannsævi sem maður er búinn að lifa með honum. Ég held að hann hafi ekki gert neitt annað en að gera mönnum gott. Náunginn var eldklár og ég held að hann myndi falla undir það að hafa víkkað sjóndeildarhringinn hjá flestum, á ýmsa vegu.“

Nánast ekkert farið í viðtöl í um tíu ár

Halldór segir að dauði Bowie hafi komið honum og raunar flestum öðrum mjög á óvart. „Hann hefur nánast ekkert farið í viðtöl í um tíu ár. Þetta er svakalegt. Samt allt öðruvísi þegar menn deyja svona. Þetta er ekki alveg eins og með Lennon sem kom allt öðruvísi. Hann virðist hafa vitað af þessu í þónokkurn tíma.“ Greint var frá því í morgun að Bowie hefði látið lífið í faðmi fjölskyldunnar eftir átján mánaða baráttu við krabbamein. Duncan Jones, sonur Bowie, staðfesti þær fregnir síðan á Twitter-síðu sinni í morgun. 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

David Bowie látinn