Datt fram úr rúminu í skjálftanum

01.02.2020 - 19:51
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Íbúum Grindavíkur þótti skjálftahrinna í gærkvöldi og nótt óþægileg, en héldu ró sinni. Sumum börnum leist hins vegar ekki á blikuna og fóru að gráta.

Mikil jarðskálftavirkni var hér við Grindavík í gærkvöldi og í nótt, einkum norðnorðaustur af Grindavík. Á milli 300 og 400 skjálftar mældust á þessum tíma. Þeir fundust vel, auðvitað hér á Reykjanesinu, en líka á höfuðborgarsvæðinu og allt upp í Borgarfjörð.  Síðasta sólarhring hafa mælst þar yfir 700 skjálftar, en í morgun dró úr hrinunni.  Í heildina hefur land risið yfir fjóra sentimetra frá 20. janúar. Gervitunglamyndir sýna sömu þróun. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir þessa hrinu ekki skera sig úr.

„Það sem sker sig úr er landrisið og hrinan hún tengist því, jarðskjálftarnir eru frekar afleiðing af því heldur en að þeir geri þetta, þannig að það er svo sem ekkert sérstakt að lesa í þessa hrinu, þessa skjálfta  sem að komu í nótt, þetta er það sem við má búast.“

Hann segir eldgos ekki vera að bresta á.

„Nei, það er ekki að bresta á. Við getum ekki verið viss um hvernig þetta endar og það er náttúrlega út á það sem viðbúnaðurinn gengur. Í meirihluta tifella þá hættir svona atburðarrás áður en kemur til goss. Hvar þetta endar getum við ekkert sagt um, við verðum bara að vera viðbúin.“

Lífið gekk sinn vanagang í fallegu veðri í Grindavík í dag. Íbúar sem fréttastofan ræddi við sögðu að íbúafundur sem haldinn var í bænum á dögunum með ýmsum sérfræðingum hafi á ýmsan hátt auðveldað þeim að takast á við hrinuna og öflugu skjálftana, þótt þeim hafi ekki liðið vel í gærkvöldi og nótt á meðan jörðin skalf. Emma Geirsdóttir fann vel fyrir skjálftunum

„Þetta var bara svona snögg og ekkert langt þannig að maður fann vel fyrir þessu, það hristist allt.“
Var þér brugðið?
„Já, svona aðeins en ekkert meira en það.“
Þú hefur náð að sofna
?
„Já,já, ég svaf vel í nótt.“

Og Uni Þór Einarsson  var vel var við skjálftana.

„Já, heldur betur, allavega fyrri skjálftanum sérstaklega þetta var mikið kraftmeira en þessir skjálftar sem hafa verið hérna.“
Var þér brugðið?
„Nei, ég er búinn að vera ótrúlega rólegur yfir þessu, en manni stendur kannski ekki alveg á sama, en dóttir mín, hún vaknaði og það tók hana nokkurn tíma að sofna aftur.“

Soffíu Rut Einarsdóttur, sem er átta ára, leist ekki á blikuna þegar stóru skjálftarnir komu.

„Ég var mjög hrædd.“
Var hann mjög sterkur, voru þetta mikili læti?
„Já.“
Hvað gerðirðu þegar þú fannst hann?
„Ég fór að gráta.“
En var svo allt í lagi?
„Já.“ 

Og Önnu Ýr, tvíburasystur hennar leið eins.

„Hann var stór og ég var pínu hrædd þegar hann kom.“
Hvar varstu þegar skjálftinn kom?
„Upp í rúmi.“
Og hvað gerðist?
„Ég datt út úr rúminu.“
Meiddirðu þig?
„Nei.“

Á dögunum var haldinn íbúafundur með ýmsum sérfræðingum sem veittu svör við  spurningum  sem brunnu á íbúunum. Jón Guðmundr Björnssoníbúi í Grindavík telur að það hafi nýst íbúunum í skjálftahrinunni núna.

„Ég held það já, ég held að það hjálpi allt svona til og ég held líka að fólk hérna standi betur saman.“

Hallfríður Guðmundsdóttir segir tilfinninguna þegar skjálftarnir komu ekki hafa verið góða.

„Þetta er svo óhugnarleg tilfinning, það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Maður var ekki beint hræddur, þetta var bara svo óhugnarlegt, að skjálfa svona mikið og lengi og oft.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi