Dansarar syngja sína sögu

Mynd:  / 

Dansarar syngja sína sögu

12.02.2019 - 14:12

Höfundar

„Þó að ég sé ekki alveg viss um að ég sé hrifin af þessum persónulega stíl sem höfundur notar þá var ég mjög hrifin af færni hans í að kóreógrafera hreyfingarnar,“ segir gagnrýnandi Menningarinnar um sýninguna Um hvað syngjum við, sem Íslenski dansflokkurinn sýnir á stóra sviði Borgarleikhússins.

Sesselja G. Magnúsdóttir skrifar:

Í dansverkinu Um hvað syngjum við hefur danshöfundurinn Pieter Ampe beðið dansara Íslenska dansflokksins að líta inn á við og nýta sér einhverja persónulega reynslu eða tilfinningu sem hvata að frásögn eða sóló-dansi fyrir sig. Það er nánast orðin regla í danssköpun að danshöfundurinn setur rammann en dansararnir taka síðan þátt í að fylla upp í hann með sínum eigin hreyfingum eða hugmyndum. 

Dansverkið Um hvað syngjum við samanstendur sem sagt af átta mjög persónulegum, ég ætla að kalla frásögnum, þar sem hver dansari segir sína sögu og nýtir til þess tal, söng og eða hreyfingar. Dansararnir eru samt aldrei einir á sviðinu heldur eru einn og einn í forgrunni en í sterku samspili við hina dansarana. Gott dæmi er „frásögn“ Charmene Pang en segir okkur, í texta og hreyfingum, frá upplifun sinni af því að hrekjast með fjölskyldu sinni á milli landa, Kína, Hong Kong og áfram. Í upphafi atriðsins stóð hún ein í forgrunni og sagði frá en þegar líða tók á frásögnina komu hinir dansararnir og byrja að flytja hana á milli staða í stanslausu flæði. Hún hélt áfram að tala á meðan hún flaut með straumnum um allt sviðið. Þannig var upplifun hennar líkömnuð í dásamlega fallegri kóreógrafíu fyrir allan hópinn. 

Áleitnar og persónulegar spurningar

Ég veit ekki nákvæmlega hvaða verkefni Pieter setti dönsurunum fyrir í upphafi æfingaferlisins en það sem dansararnir opinbera í frásögnum sínum eru mjög áleitnar og persónulegar spurningar. Dansararnir opinberuðu hugsanir og reynslu tengdum kynhneigð, kynlöngun, ófrjósemi, nekt, tíðum flutningum á milli landa og tengslum við sína nánustu. Dansararnir komu fram undir eigin nafni í verkinu, stíll sem er mikið notaður í sviðslistum þessi misserin, og opinbera mjög persónulega upplifun og reynslu,  að minnsta kosti lítur það þannig út. Málefnin sem komu fram voru þó öll mikilvæg málefni sem brenna á fólki almennt, kannski ekki síst ungu fólki og þannig var hið persónulega einnig hið almenna.   

Mynd með færslu
 Mynd:

Þessi persónulega nálgun gerði að verkum að áhorfanda leið eins og hann væri vitni að hópmeðferð þar sem hver og einn þátttakandi kom fram og sagði frá því sem honum lá á hjarta sem lið í mjög persónulegri sjálfsvinnu. Vandamálin voru misjöfn og einstaklingarnir mistilbúnir til að opna sig eins og gerist í þess konar meðferðarformi. Erna Gunnarsdóttir nefndi til dæmis í upphafi sinnar „frásagnar“ stór málefni sem auðveldlega geta valdið mikilli sálarangist en í stað þess að fara nánar út í þau sagðist hún ekki nenna að tala um þau en vildi miklu frekar dansa og gerði það svikalaust ásamt hinum dönsurunum. 

Að sama skapi var erfitt að rýna í frásögn Shota Inoue sem valdi að tjá sig með viðkvæmum söng og spili á sög, afkáralegum stellingum og nekt. Þar var einhvern veginn ekki alveg skýrt hvort hann væri að gera grín eða að tjá sig af einlægni. Shota flutti atriðið kviknakinn og þess vegna voru varúðarorð í leikskránni um að sýningin innihéldi nekt - sem er athyglisvert í samhengi við alla þá nekt og það ógeðslega ofbeldi sem flæðir yfir okkur dagsdaglega í fréttum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. En kannski var það markmiðið að vekja athygli á þessu einkennilega viðhorfi til líkamans sem hefur viðgengist um aldir. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Ég sem áhorfandi velti fyrir mér stöðu dansaranna í þessari gerð framsetningar og tilgangi þess að þeir opni sína innstu sálarkima fyrir áhorfendum. Er það þar sem listin býr? Er besta leiðin að því almenna í gengum hið persónulega? Á dansarinn aðeins eitt sjálf, hið persónulega, eða getur hann skilið á milli síns persónulega og opinbera lífs. Hvaða erindi á danshöfundurinn við áhorfendur? Hver eru tengslin við áhorfendur? 

Á hópmeðferðin erindi við áhorfendur?

Mín fyrstu viðbrögð við Um hvað syngjum við voru að velta fyrir mér hvort ég hefði áhuga á að vera vitni að sjálfsvinnu dansaranna eða þörf danshöfundarins til að leita að efnivið fyrir verkið í persónulegu lífi þeirra. Voru til dæmis mjög svo persónulegar frásagnir bæði Unu Bjargar Björnsdóttur og Elínar Signýjar Ragnarsdóttur að tala til mín? Mín niðurstaða varð sú að ég hef engan sérstakan áhuga á að vera vitni að hópmeðferðarfundi eins og þeim sem settur var fram. Mér fannst málefnin sem fram komu aftur á móti áhugaverð og frammistaða bæði danshöfundar og dansara góð. Elín og Una ásamt öllum hinum skiluðu sínu vel, senurnar voru vel gerðar og flæði milli frásagna var fallegt. Samt finnst mér þessi persónulegi innblástur ekki endilega nauðsynlegur.

Það sem gerði verkið ekki síst áhugavert var hversu líkamlegt það var. Hinar svokölluðu frásagnir voru ekki aðeins í orðum, heldur ekki síður í gegnum sterka líkamlega tjáningu og það var í þessum köflum sem danssmíðin naut sín. Frásögn Félix Urbina Alejandre var kannski besta dæmið um þetta en hann notaði ekki orð heldur aðeins hreyfingar til að ná til áhorfenda. En það saman má segja um ögrandi frásögn Tilly Sordat þar sem hún sýndi kynferðislega tilburði einhvers staðar á milli sjálfsfróunar eða kynferðislegrar misnotkunar allt eftir því hvernig áhorfandi upplifði það.  

Trúnó í útilegu

Uppbygging verksins var nokkuð skýr en það var lengi að fara í gang. Það hófst í einskonar útilegu þar sem dansararnir skemmtu sér. Þeir byrjuðu síðan einn af öðrum að tjá sig um sín mál og reið Sigurður Andrean Sigurgeirsson á vaðið með sína frásögn. Frásögnin hans týndist þó því miður að einhverju leyti, því það var eiginlega ekki fyrr en um seinan að áhorfendur áttuðu sig á því að Sigurður væri þarna að flytja sitt framlag. Hans sóló hvarf inn í þennan inngang ef svo má kalla og fékk ekki þá athygli sem hinar frásagnirnar fengu. Verkið þróaðist síðan frá þessari útilegustemningu og ákveðinni óreiðu og partístemningu yfir í trúnófrásagnirnar (hópmeðferðina) og niðurbroti tjaldbúðanna yfir í uppbyggingu þeirra aftur og sáttar. 

Um hvað við syngjum er áhugavert verk sem tekst á við málefni sem kemur okkur öllum við.  Það er mjög líkamlegt og krefst mikils hraða og styrks af dönsurunum. Dansararnir nota einnig söng og talað mál til að koma efninu til skila til áhorfenda og fórst það vel úr hendi. Öll umgjörð verksins var frekar hrá og tónlistin í verkinu var fyrst og fremst samansafn þekktra dægurlaga. Tónlistarvalið, lýsingin og sviðsmyndin skapaði ákveðna partístemningu eða stemningu eins og skapast í útilegu þegar rökkva tekur og varnir þátttakenda bresta og trúnó tekur við. Þó ég sé ekki alveg viss um að ég sé hrifin af þessum persónulega stíl sem höfundur notar þá var ég mjög hrifin af færni hans í að kóreógrafera hreyfingarnar. Ég mæli því með að fólk fari í Borgarleikhúsið og sjái um hvað Íslenski dansflokkurinn syngur þessa febrúardaga.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Dansarar hefja upp raust sína