Dansa til að vera sterk en ekki kynþokkafull

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Dansa til að vera sterk en ekki kynþokkafull

27.10.2019 - 09:24

Höfundar

Í Eurovision atriði gjörningasveitarinnar Hatara gengdi dansinn engu síðra hlutverki en tónlistin við að miðla boðskap og gagnrýni. Hreyfingar dansaranna sögðu sína eigin sögu með tilheyrandi persónusköpun og tjáningu. 

Dansararnir Sólbjört Sigurðardóttir og Andrean Sigurgeirsson rifjuðu upp eftirminnilegt ævintýri í Tel Aviv í vor þegar Hatari hafnaði í tíunda sæti í Eurovision keppninni þar ytra eftir að hafa valdið miklum usla með ögrandi atriði og beittum yfirlýsingum. Andrean og Sólbjört sáu um danstaktana á sviðinu ásamt Ástrósu Guðjónsdóttur. Guðrún Sóley Gestsdóttir hitti Sólbjörtu og Andrean og rædd við þau um það sem fram fór á sviðinu í Tel Aviv.

Matti er einræðisherrann

„Ef maður myndi rýna í hírarkíuna í dansinum þá er ég lang lægstur,“ segir Andren og hlær. „Matti tuskar mig til og ég elti hann. Þetta býður upp á misjafna narratívu fyrir áhorfandann.“

Hreyfingar stelpnanna eru frábrugðnar hreyfingum Andreans, ólíkt honum voru þær vélrænar í hreyfingum og dönsuðu í takt. „Þær gætu verið vísanir í lögregluvaldið, ég stend fyrir jaðarhópa í samfélaginu og Matti er einræðisherrann.“

Andrean fékk innblástur frá Vogue dansstílnum sem fundinn var upp af minnihlutahópum, aðalega lituðu hinsegin fólki í New York á níunda áratugnum. „Ég nýtti minn sviðstíma í að spyrja spurninga og notaði dans sem tengist hinsegin menningu,“ segir Andrean.

Röddin í dansinum

Sólbjört segir mikilvægt fyrir sér að áhorfandinn sjái og skynji sterkar konur á sviðinu. „Við erum ungar konur í þröngum búningum með ólar. Áhorfandinn sér ákveðna konu á sviðinu,“ segir Sólbjört. „Það sem mér finnst mikilvægt að komi fram í dansi Hatara er þessi sterka kona sem er ekki undirgefin eða raddlaus. Það er rödd í dansinum.“

Hún segir að í dansinum felist frásögn í sjálfu sér. „Það er ekki sama hvernig maður framkvæmir þessar hreyfingar. Innri ásetningurinn og innri orkan skipta svo miklu máli,“ segir hún. 

Sólbjört segir að þó hreyfingar stelpnanna á sviðinu geti talist kynþokkafullar sé ásetningurinn annar. „Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig ég eigi að eigna mér minn eigin kynþokka, hann er ekki til sölu. Ástæða hreyfingarinnar er ekki að vera kynþokkafull, ég vil að áhorfandinn sjái sterka konu sem má gera það sem hún vill.“

Innslagið í spilaranum efst í fréttinni er úr þættinum Sporið sem sýndur var á RÚV í gær. Allan þáttinn er hægt að horfa á í spilaranum.

Tengdar fréttir

Jafnréttismál

Fleiri atriði og lengri gönguleið en áður

Tónlist

Hatari og Bashar Murad - KLEFI / SAMED (صامد)