Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Danmörk skellir í lás vegna Covid-19

11.03.2020 - 20:04
epa08283061 Danish Prime Minister Mette Frederiksen holds a press briefing on the novel coronavirus Covid-19 situation, in Copenhagen, Denmark, 10 March 2020. Denmark announced on the day that it has registered 156 cases of Covid-19 infections.  EPA-EFE/LISELOTTE SABROE  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Öllu skólastarfi er aflýst í Danmörku og meirihluti ríkisstarfsmanna sendir heim næsta hálfa mánuðinn. Þá mælast dönsk stjórnvöld til þess að öllum viðburðum þar sem fleiri en eitt hundrað koma saman verði aflýst í landinu. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hélt nú í kvöld, vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hélt blaðamannafund nú á níunda tímanum í kvöld. Tilefnið var hröð útbreiðsla Covid-19 veirunnar í landinu. 514 hafa nú greinst með smit í Danmörku, tíu eru á sjúkrahúsi, þar af tveir alvarlega veikir. Frederiksen sagði að í ljósi hraðrar útbreiðslu veirunnar í landinu yrði ríkisstjórnin að grípa til aðgerða. Verkefnið að hefta útbreiðslu veirunnar væri hins vegar allrar þjóðarinnar, allir þyrftu að leggja sitt að mörkum til að vernda veikustu íbúa landsins.

Nemendur á öllum skólastigum verða heima næstu tvær vikurnar frá og með næsta föstudegi. Allar mennningarstofnanir, listasöfn, bókasöfn og annað í þeim dúr verður sömuleiðis lokað. Heilbrigðisstarfsfólk og lögregla eru meðal þeirra sem halda áfram störfum sínum, en meirihluti allra annarra ríkisstarfsmanna verður sömuleiðis heima næstu tvær vikurnar. Allir sem sendir eru heim halda laununum sínum, að sögn forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen.

Samkomubann fyrir fleiri en 100

Dönsk stjórnvöld höfðu áður sett samkomubann á viðburði þar sem fleiri en eitt þúsund koma saman. Á blaðamannafundi kvöldsins sagði Frederiksen að nú mældust stjórnvöld til þess að öllum viðburðum þar sem fleiri en eitt hundrað koma saman yrði aflýst. Þannig væri biðlað til skemmtistaða að loka næsta hálfa mánuðinn.

Frederiksen sagði enga ástæðu fyrir fólk að hamstra mat, nóg væri til af matvælum í landinu.

„Við komumst ekki í gegnum þetta án fórnarkostnaðar. Einhverji munu missa vinnuna,“ sagði Frederiksen meðal annars.

Þá sagði forsætisráðherrann að í skoðun væri að hefta að einhverju leyti komur ferðamanna til landsins og að fleiri löndum yrði bætt á lista stjórnvalda yfir þau lönd sem Danir ættu ekki að heimsækja á næstunni. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV