Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dánarorsök Birnu Brjánsdóttur var drukknun

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Dánarorsök Birnu Brjánsdóttur var drukknun. Einnig voru áverkar sem benda til þess að þrengt hafi verið að hálsi hennar. Lík Birnu var nakið þegar það fannst eftir vikuleit í fjörunni við Selvogsvita.

Lögreglan bíður enn lokaskýrslu krufningar á líki Birnu. Heimildir fréttastofu herma þó að lögreglan telji sig hafa það nákvæma niðurstöðu á því hvernig Birna lést að lokaskýrslan muni ekki breyta mati þeirra.  

Þar sem öðrum sakborningnum var sleppt úr gæsluvarðhaldi á fimmtudag má telja nokkuð ljóst að ofbeldi gegn Birnu hafi ekki hafist fyrr en hann fór úr rauða Kia bílnum.  Í bílnum var blóð úr Birnu sem gefur til kynna að ráðist hafi verið á hana þar.  Samkvæmt heimildum fréttastofu telur Lögreglan ólíklegt að vopni hafi verið beitt. Ekkert slíkt hefur fundist. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Lík Birnu var nakið þegar það fannst eftir vikuleit í fjörunni við Selvogsvita. Rannsókn á sjávarstraumum og vindátt benda til þess að líkið hafi borist í sjó einhverstaðar vestan við vitann.   Í gær leituðu björgunarsveitarmenn að vísbendingum við Vogsós neðan við Hlíðarvatn en úr því rennur ferskvatn til sjávar. Hugsanlegt þykir að banamaður Birnu hafi losað sig við hana þar.  Við drukknun berst vatn í lungu og bráðabirgðaskýrsla krufningar sýnir að vatn var í lungum Birnu samkvæmt heimildum fréttastofu.  Ekki liggur fyrir hvort banamaður hennar vissi að hún var með lífsmarki þegar hann kom henni í sjó. 

Verjandi mannsins, sem situr í haldi, kærði gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóm Reykjaness til Hæstaréttar en maðurinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á fimmtudag í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu liggur niðurstaða ekki fyrir .   Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að líklega yrði maðurinn ekki yfirheyrður í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV