Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dalvíkingar taka gervigrasvöll í notkun

Mynd með færslu
 Mynd: UMFS/Haukur Snorrason - RÚV

Dalvíkingar taka gervigrasvöll í notkun

05.09.2019 - 14:06
Nýr gervigrasvöllur var tekinn formlega í notkun á Dalvík. Völlurinn var vígður við hátíðlega athöfn þann 31. ágúst. Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar segir hann risastórt skref fyrir sveitarfélag af þeirri stærðargráðu sem Dalvíkurbyggð sé og að hann hafi mikla þýðingu fyrir byggðarlagið.

„Með tilkomu gervigrasvallarins, að viðbættri þeirri aðstöðu sem fyrir er til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu, er Dalvíkurbyggð orðin eftirsóttarverðari fyrir barnafjölskyldur sem eru að skoða búsetukosti til framtíðar. Að börnin okkar fái tækifæri til að æfa við bestu aðstæður er ómetanlegt,“ sagði Katrín í ræðu sinni.

Á vordögum 2018 samþykkti fyrrverandi sveitarstjórn að Dalvíkurbyggð kæmi að verkefninu með 10 miljón króna hönnunarstyrk og í framhaldinu framkvæmdastyrk upp á 160 miljónir króna.  Árið 2018 fór fram hönnun mannvirkisins en snemma árs 2019 var gengið frá samningum á milli Dalvíkurbyggðar og UMFS um framkvæmdina ásamt afnotasamningi og rekstraráætlun.

Bræðurnir Björgvin og Gunnlaugur Jón Gunnlaugssynir voru  sæmdir gullmerki KSÍ við sama tilefni. Björn Friðþjófsson var síðan sæmdur gullmerki UMSE fyrir starf sitt í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála. Tryggvi Guðmundsson, fékk þakklætisvott frá UMFS fyrir óeigingjarnt vinnuframlag sitt í þágu vallarins.  Katrín vék sérstaklega að þætti Björns í uppbyggingu vallarins og starfi ungmennafélagsins.

„Þá vil ég einnig nefna Björn Friðþjófsson og hans fórnfýsi og einurð. Björn var til margra ára í forsvari fyrir baráttufólk fyrir tilkomu gervigrasvallar. Ég leyfi mér að fullyrða að án hans framgöngu værum við ekki stödd á þessum gleðilegu tímamótum í dag. Björn hefur verið vakinn og sofinn yfir þessari framkvæmd frá upphafi til enda og haldið utan um alla þræði með miklum sóma. Hann getur í dag ásamt fleirum horft stoltur til baka sem sannur ungmennafélagi og sjálfboðaliði,“ sagði Katrín.

Mynd með færslu
Bræðurnir Björgvin og Gunnlaugur Jón Gunnlaugssynir, Björn Friðþjófsson og Guðni Bergsson, formaður KSÍ
Mynd með færslu
Knattspyrnufólk framtíðar keppti gegn foreldrum sínum á nýja vellinum.
Mynd með færslu
Knattspyrnuaðstaða Dalvíkinga mun gjörbreytast til hins betra með nýja vellinum.

Tengdar fréttir

Dalvíkurbyggð

Regnbogagata Hinsegin daga opnuð á Dalvík

Veður

Veðurklúbburinn á Dalvík spáir kulda

Dalvíkurbyggð

Ný hús spretta upp í Dalvíkurbyggð