Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dalvíkingar stinga jólaseríum í samband

19.12.2019 - 13:54
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Atvinnulíf er að komast í samt horf aftur í Dalvíkurbyggð eftir um viku rafmagnsleysi. Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk í gær. Hægt og rólega er slökkt á varaaflsvélum og íbúarnir stinga jólaseríunum í samband.

„Við erum uppljómuð,“ sagði Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, laust fyrir hádegi. Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk í gær og hægt og rólega er verið að slökkva á varaaflsvélum og tengjast landsnetinu. Katrín segir að þéttbýlið hafi verið tengt í gærkvöldi en þetta sé gert í skrefum. Smám saman séu íbúar að stinga jólaseríunum í samband og andrúmsloftið að breytast. 

Hún segir að það sé erfitt að trúa því að rafmagnið sé komið á. Hugsunin sé ennþá sú að spara rafmagnið og hún sé hálffeimin við að nota það. Þessi lífsreynsla kenni fólki að meta betur þau lífsgæði sem í rafmagninu eru fólgin.

Tugmilljóna króna tjón

Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Samherja, segir að rafmagnsleysið hafi haft mikil áhrif og tjónið hlaupi á tugum milljóna króna. Öll vinnsla á Dalvík lá niðri í fimm daga og um 140 starfsmenn voru á launum á meðan. Ekkert tjón hafi orðið vegna hráefnis þar sem Samherji búi svo vel að hafa annað stórt hús á Akureyri og gat bætt í vinnsluna þar. Hluti af starfsfólkinu hafi farið þangað og unnið langa daga og helgina. Þá varð ekkert tjón á tækjabúnaði og skipum. 

Gestur segir að síðustu tvær vikur fyrir jól séu stærstu vikur ársins hjá þeim svo veðrið hafi dunið yfir á versta tíma. „Þetta er ný upplifun sem enginn gerir ráð fyrir,“ segir Gestur. Hans fólk hafi hins vegar verið vel undirbúið. Þá vill hann koma á framfæri þakklæti til allra viðbragðsaðila. Fyrirtækið fari bratt inn í jólin, vinnsla hófst aftur á þriðjudaginn og gærdagurinn var stærsti dagurinn í vinnslunni á þessu ári.