Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dagur vatnsins

23.03.2017 - 15:12
Myndin er úr safni - Mynd: - / wilkimedia
Er fráveituvatnið vannýt auðlind? Þetta er eitt þeirra atriða sem Stefán Gíslason kemur inná í pistli sínum í dag.

 

Í gær, miðvikudaginn 22. mars, var dagur vatnsins haldinn hátíðlegur víða um heim. Hugmyndin um að halda slíkan dag var sett fram á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 og árið eftir var dagurinn haldinn í fyrsta sinn. Síðan þá hefur 22. mars verið hinn árlegi dagur vatnsins.

 

Á Degi vatnsins er sjónum jafnan beint að tilteknu viðfangsefni, sem að þessu sinni var fráveituvatn, eða öðru nafni skólp. Í tilefni dagsins gaf Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) út sérstaka skýrslu í gær undir yfirskriftinni „Fráveituvatn: Hin vannýtta auðlind“. Í skýrslunni er m.a. fjallað um mikilvægi þess að draga úr magni þess vatns sem berst í fráveituna og um leiðir til að auka endurnýtingu vatns og seyru.

 

Því fer fjarri að fráveitumálin í heiminum séu komin í það horf sem þau þurfa að vera til að uppfylla 6. sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 um að öllum skuli tryggður aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu. Enn þann dag í dag er stórum hluta af öllu fráveituvatni sleppt óhreinsuðu út í umhverfið. Verst er ástandið í fátækustu löndunum eins og við má búast, þar sem aðeins um 8% fráveituvatns er hreinsað að einhverju leyti, samanborið við 70% í ríkustu löndunum.

 

Það fer ekkert á milli mála að magn fráveituvatns mun aukast verulega í náinni framtíð og þá munu stórar borgir, sérstaklega í þróunarlöndunum, standa frammi fyrir stórum áskorunum í skólphreinsimálum. Í skýrslu OECD er borgin Lagos í Nígeríu nefnd sem dæmi um þetta en þar falla nú til um ein og hálf milljón rúmmetra af skólpi á dag. Það vatnsmagn myndi duga til að fylla 600 sundlaugar af viðurkenndri Ólympíustærð og mest af þessu vatni fer óhreinsað út í Lagos lónið. Þessi staða á bara eftir að versna ef ekkert verður að gert, enda fólksfjölgun ör, ekki síst í óskipulögðum fátækrahverfum í borginni. Árið 2020 er gert ráð fyrir að fólksfjöldinn á Stór-Lagossvæðinu verði kominn í um 23 milljónir manna.

 

Í skýrslu UNESCO kemur fram að sjúkdómsvaldandi örverur úr skólpi mengi nær þriðjung af öllum ám í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku og ógni lífi milljóna manna. Áætlað er að á árinu 2012 hafi mátt rekja um 842.000 dauðsföll í þróunarríkjum til mengaðs vatns og ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu. Mengun vatns vegna leysiefna og annarra efna frá iðnaði, næringarefna frá landbúnaði og þar fram eftir götunum er vel þekkt vandamál og á síðustu árum hafa efni á borð við hormóna, sýklalyf og stera skotið upp kollinum í fráveituvatninu og valdið nýjum áhyggjum.

 

Mengun úr fráveituvatni berst líka í drykkjarvatn og þrengir þannig að þeirri mikilvægu auðlind. Stjórnvöld í flestum ríkjum eru meðvituð um mikilvægi þess að vernda ferskvatnsauðlindir, sérstaklega þar sem menn eru farnir að sjá fram á skort á drykkjarhæfu vatni. Hins vegar hefur mun minni áhersla verið lögð á að stýra afdrifum vatnsins eftir að notkun þess lýkur. Þetta tvennt er þó augljóslega nátengt. Söfnun, meðhöndlun og nýting fráveituvatns er í raun undirstaða hringrásarhagkerfisins, svo senn sé vitnað í skýrslu UNESCO. Málið snýst heldur ekki bara um að koma í veg fyrir að fráveituvatnið verði til vandræða, heldur einnig og ekki síður um að nýta auðlindirnar sem í því felast, hvort heldur sem átt er við vatnið sjálft eða næringarefnin sem leynast í því. Ef rétt er á málum haldið á að vera hægt að nota hvern lítra af vatni nokkrum sinnum. Þekkasta leiðin til endurnýtingar er vökvun á landbúnaðarlandi, en þar þarf að fara að öllu með gát til að lágmarka smithættu. Jórdanía er eitt þeirra landa sem hafa náð bestum tökum á öruggri endurnýtingu fráveituvatns til vökvunar, en þar fara um 90% af öllu hreinsuðu fráveituvatni í þann farveg. Annað dæmi er Ísrael þar sem fráveituvatn er nær helmingur af öllu því vatni sem notað er til vökvunar.

 

Í iðnaði liggja líka mikil tækifæri til að endurnýta vatn, sérstaklega til hitunar og kælingar. Á nokkrum stöðum hafa menn komist enn lengra og náð góðum tökum á að hreinsa fráveituvatn nógu vel til að nýta megi það til að drýgja drykkjarvatnið. Dæmi um þetta eru borgir á borð við Singapúr, Windhoek í Namibíu og San Díegó í Kaliforníu. Besta dæmið er þó kannski Alþjóðlega geimstöðin þar sem geimfararnir hafa notað sama vatnið í meira en 16 ár.

 

Íslendingum hættir til að hugsa sem svo að skólp sé til vandræða í útlöndum. Á Íslandi sé allt svo hreint og fínt og fjallalækirnir sjái okkur fyrir endalausu rennsli af tæru vatni sem skipti engu máli hvort renni í gegnum klósettin okkar á leið til sjávar eður ei. Nýleg dæmi minna samt á að jafnvel á Íslandi getum við hvorki gengið um ferskvatnsauðlindina né fráveituvatnið af ótakmörkuðu, sjálfumglöðu kæruleysi. Nýleg umræða um fráveitumál í Mývatnssveit er sennilega flestum enn í fersku minni og á höfuðborgarsvæðinu hafa menn vaknað upp við þann vonda draum að þaðan skolast langtum meira af örplasti út í sjó með fráveituvatninu en gengur og gerist í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við.

 

En fráveituvatn er ekki bara vandamál, heldur líka auðlind. Í fráveituvatni er t.d. mikið af fosfór og ef svo heldur sem horfir munu nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins ganga til þurrðar á næstu áratugum eða öldum. Áætlað hefur verið að hægt sé að fullnægja 22% af eftirspurn eftir fosfór á heimsvísu með því að nýta það sem gengur niður af mönnum í föstu og fljótandi formi. Í sumum löndum, svo sem í Sviss, er meira að segja búið að binda endurheimt fosfórs og annarra tiltekinna næringarefna í lög. Á sama tíma látum við Íslendingar þessi efni renna að mestu óhindruð og ónotuð út í vötn og höf, jafnvel þótt landið okkar sé það eina í Vestur-Evrópu sem glímir við eyðimerkurmyndun.

 

Hluti af þeim auðlindum sem felast í fráveituvatninu verða eftir í seyru, þ.e.a.s. á þeim stöðum þar sem skólprörunum er ekki leyft að bera allt gumsið til sjávar, þykkt sem þunnt. Enn má þó finna dæmi um það á Íslandi að seyra sé urðuð, en urðun er einmitt önnur mjög öflug leið til að taka auðlindir úr umferð og tryggja að komandi kynslóðir fái ekki notið þeirra. Frá þessu eru þó nokkrar áhugaverðar undantekningar. Þannig hafa nokkur sveitarfélög á Suðurlandi tekið upp samstarf um að meðhöndla seyru og nýta hana síðan til uppgræðslu á svæðum þar sem gróður er á undanhaldi, enda inniheldur seyra bæði lífrænt efni sem byggir upp jarðveginn og gerir hann vatnsheldari og næringarefni fyrir gróður sem kann að taka sér bólfestu í þessum jarðvegi.

 

Meginniðurstaðan úr þessu öllu er sú að Dagur vatnsins gefi jarðarbúum, meira að segja Íslendingum, tækifæri til að rifja upp hversu gríðarlega mikilvæg vatnsauðlindin er og hversu mikla ábyrgð við berum, sem byggjum heimsþorpið Jörð um þessar mundir, á því að hægt verði að nýta þessa auðlind um ókomin ár, ekki bara vatnið sjálft, heldur líka efnin sem við höfum löngum leyft að fljóta með því á einhvern stað þar sem þau verða engum til gagns.

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður