Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dagur pólitískra hamfara

05.04.2017 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Eitt ár er í dag liðið frá því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra vegna uppljóstrana í Panamaskjölunum um eignir í aflandsfélögum á Bresku Jómfrúaeyjum. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði líka af sér en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, og Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sátu áfram þrátt fyrir uppljóstranir um tengsl þeirra við aflandsfélög.

Hundrað Íslendingar í Panamaskjölunum

Uppljóstranir í Panama-skjölunum um tengsl stjórnmála- og viðskiptamanna við aflandsfélög á Bresku jómfrúaeyjum 3. apríl í fyrra ollu titringi víða um heim og leiddu til afsagna ráðamanna. Hérlendis hófst umræðan þremur vikum fyrr þegar fréttir bárust af því að maki forsætisráðherra ætti félag á aflandseyju sem gert hafði kröfu í þrotabú eins bankanna sem féllu í hruninu 2008. Eftirköst Panamaskjalanna risu hæst á Íslandi þriðjudaginn 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að sýndur var fréttaskýringaþáttur Reykjavik Media og Kastljóss með uppljóstrunum um forsætisráðherra og fleiri stjórnmálamenn.

Lýsa má atburðum dagsins sem pólitískum hamförum þar sem forsætisráðherra virtist hóta samstarfsflokknum stjórnarslitum, forseti sagðist hafa hafnað þingrofsbeiðni forsætisráðherra sem síðar um daginn varð að sjá eftir forsætisráðherrastólnum í hendur varaformanns síns.

Daginn hóf Sigmundur Davíð vígreifur í viðtali á Bylgjunni og virtist þá engan bilbug á honum að finna. Einum vinnudegi, eða átta klukkustundum síðar, var hann orðinn valdalaus, búinn að tilkynna að hann bæðist lausnar sem forsætisráðherra og búinn að missa stuðnings þingflokks síns.

Um hundrað Íslendingar í stjórnmálum og viðskiptum hafa komið við sögu í fréttum sem byggjast á Panamaskjölunum á því eina ári sem liðið er frá birtingu þeirra.

Mynd: Kastljós / RÚV

Ræddi þingrof á Facebook

Það var ef til vill til marks um að ný kynslóð væri sest að völdum á Íslandi að forsætisráðherra birti færslu á Facebook-síðu sinni á tólfta tímanum 5. apríl, þar sem hann fór yfir umræðuefni fundar sem hann hafði átt með Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, manni sem líka kom við sögu í Panamaskjölunum.

Önnur efnisgrein færslunnar bar því ljóst merki að mikið gekk á í íslenskum stjórnmálum þessa daga.

Jafnframt fór ég yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.

Sigmundur Davíð hafði átt undir högg að sækja í tæpar þrjár vikur þegar hann skrifaði þessa færslu, allt frá því eiginkona hans greindi frá því að hún ætti félag sem stofnað hefði verið í Bretlandi. 

Næsta dag kom í ljós að félagið var skráð í skattaskjóli, á Bresku jómfrúareyjum  og að það hefði gert kröfu í slitabú Landsbankans. Síðar kom í ljós að færslu eiginkonunnar mátti rekja til viðtals sem tekið var fyrir þátt Kastljóss og Reykjavik Media um málið. Þegar þátturinn birtist sást forsætisráðherra svara ósatt um tengsl sín við Wintris.  Kröfur um afsögn Sigmundar urðu æ háværari og næsta dag áttu sér stað einhver fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar. Slegið var á að 22 þúsund manns hefðu tekið þátt í mótmælum á Austurvelli og í nágrenninu.

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV

Afdrifarík Bessastaðaför

Um það leyti sem forsætisráðherra birti færslu sína á Facebook 5. apríl lagði hann af stað til Bessastaða til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson forseta. Forsetinn hafði flýtt heimkomu sinni til Íslands frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði verið í einkaerindum og sagðist þurfa að vera til staðar vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp væri komin.  Minnti það nokkuð á heimkomu forseta tólf árum áður, rétt áður en Alþingi samþykkti fjölmiðlalög sem forsetinn synjaði staðfestingar.

Forsætisráðherra hefur mátt hafa í huga, þegar hann ritaði orð sín um þingrof á Facebook, að þegar í lok janúar 2009, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar lagði upp laupana, sagði Ólafur Ragnar að það væri ekki sjálfgefið að forseti yrði við beiðni forsætisráðherra um þingrof. Hann sagði að það væri hvorki í þágu lýðræðis né þingræðis að einn maður hefði það vald í höndum sér að rjúfa þing. Ólafur Ragnar sagði forseta skylt að verða við beiðni forsætisráðherra ef meirihluti þingmanna styddi hann en þyrfti að taka sjálfstæða ákvörðun um beiðni forsætisráðherra sem skorti þann stuðning.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ólíkar lýsingar Ólafs og Sigmundar Davíðs

Tvennum sögum fór af því hvað forseta og forsætisráðherra fór á milli á fundi sínum. Sigmundur Davíð var þögull þegar hann ók á brott í skyndi.

Skömmu síðar kom Ólafur Ragnar fram og sagði forsætisráðherra hafa viljað kanna afstöðu sína og óska samþykkis við því að hann veitti honum heimild til að rjúfa þing, með í för hefðu verið embættismenn forsætisráðuneytisins með bréf sem forseti myndi þá undirrita. Ólafur Ragnar kvaðst hafa sagt honum að forseti þyrfti að meta hvort ríkisstjórnarflokkarnir styddu slíka ósk og hvort líklegt væri að þingrof leiddi til farsællar niðurstöðu fyrir þjóðina og stjórnarfar í landinu. Þetta hefði forsætisráðherra ekki getað fullvissað sig um. „Í ljósi þess þá tjáði ég forsætisráðherra það að ég væri ekki tilbúinn til þess nú, eða án þess að hafa rætt að minnsta kosti við formann Sjálfstæðisflokksins eða jafnvel aðra forystumenn flokka í landinu, að veita honum heimild til að rjúfa þing.“

Ólafur Ragnar sagðist vita að það væri harla óvenjulegt að hann gerði grein fyrir efni fundarins með þessum hætti þar sem reglan í íslenskri stjórnskipun væri sú að trúnaður ríkti um viðræður forseta og forsætisráðherra. Hann sagðist þó hafa ákveðið að gera þetta í ljósi þess að forsætisráðherra hefði upplýst fjölmiðla og almenning á Facebook-síðu sinni um að hann stefndi að þingrofi. Hann kvaðst hafa verið dreginn inn í pólitíska atburðarás, nokkuð sem hann teldi ekki við hæfi.

Síðdegis birtist frétt á vef forsætisráðuneytisins þar sem túlkun forseta á fundi sínum og Sigmundar Davíðs var hafnað. Þar sagði að forsætisráðherra hefði greint forseta frá því að hann myndi leggja þingrof til við forseta ef stjórnin nyti ekki lengur meirihlutafylgis, formleg tillaga hefði þó hvorki verið kynnt né borin fram.

Mynd: RÚV / RÚV

Gæslumaður þings og stjórnar

Í millitíðinni höfðu fræðimenn brugðist við yfirlýsingu forseta. Björg Thorarensen, prófessor í lögum, sagði forseta stíga með mjög afgerandi hætti inn á hið pólitíska svið. Sér sýndist sem forseti tæki sér það hlutverk að gæta hagsmuna meirihluta þingsins þar sem hann teldi forsætisráðherra ekki hafa stuðning við þingrofsbeiðnina. Hún sagði slíkt í meira lagi óvenjulegt og ekki hæfa að vísa til sögunnar í þeim efnum. Með þessu hefði forsetinn orðið gæslumaður ríkisstjórnarinnar og þar með markað tímamót með því að stíga inn á pólitískan vettvang. Með þessu hefði hann gengið gegn þeirri venju sem fylgt hefði verið þegar óskað var þingrofs. 

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði, sagði að forsetinn hefði brugðist rétt við því ekki hefði legið fyrir að forsætisráðherra nyti þingmeirihluta til að rjúfa þing. Það væri þó fordæmalaust að forseti brygðist við með þessum hætti. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Óánægja meðal þingmanna Framsóknar

Innan úr þingflokki Framsóknarflokksins heyrðist að Sigmundur Davíð hefði ekki borið það undir nokkurn mann að fara á Bessastaði og biðja um þingrof. Þingflokkurinn kom saman til fundar meðan Sigmundur Davíð, forsætisráðherra og formaður flokksins, var enn í Stjórnarráðshúsinu. Þegar Sigmundur Davíð fór til þess fundar sagði hann fréttamanni RÚV að kíkja á Facebook þar sem það væri stundum betri heimild en það sem heyrðist á blaðamannafundum.  Hann vísaði þar til ummæla Ólafs Ragnars eftir fund þeirra á Bessastöðum. Forseti og forsætisráðherra áttu síðan eftir að halda hvor fram sinni túlkun á því hvað hefði gerst á fundinum á Bessastöðum.

Mynd: RÚV / RÚV

Sigmundur víkur

Klukkan hálf fjögur kom Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins, út af þingflokksfundi Framsóknar. Hann tilkynnti að Sigmundur Davíð myndi víkja sem forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn gera tillögu um að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra.  Þá voru fjórar klukkustundir og stundarfjórðungi betur liðin síðan Sigmundur Davíð skrifaði Facebook-færslu sína áður en hann fór á fund forseta og um þrjár klukkustundir frá blaðamannafundi Ólafs Ragnars. Forsætisráðherra hafði hrökklast frá átta klukkustundum eftir að hann þvertók fyrir það í útvarpsviðtali að líf ríkisstjórnarinnar héngi á bláþræði.

Á þessum tíma var afsögn Sigmundar Davíðs kynnt fjölmiðlum og almenningi með þeim orðum að þetta gerði hann að eigin tillögu. Sigurður Ingi sagði nokkrum mánuðum síðar að svo hefði ekki verið. Trúnaðarbrestur hefði orðið milli þingflokksins og formannsins. Þannig hefði þingflokkurinn beðið sig að óska eftir viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn um áframhaldandi stjórnarsamstarf – en án Sigmundar Davíðs. Hann hefði tilkynnt Sigmundi þetta þegar hann mætti til fundar og Sigmundur þá lagt fram tillögu þessa efnis.

Ég bið þingflokkinn um að þegar hann komi til fundarins fái ég nokkrar mínútur til þess að setja hann inn í stöðuna. Sem ég og gerði. Við settumst fyrir þann tíma og ég gerði honum ljóst að hann væri búinn að missa stuðning þingflokksins

sagði Sigurður Ingi í þættinum Sprengisandi þegar hann hafði lýst yfir framboði til formennsku í Framsóknarflokknum gegn Sigmundi Davíð.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Bjarni, Ólöf og fleiri í Panamaskjölunum

Þrátt fyrir að sjónir manna beindust fyrst og fremst að samskiptum forseta og forsætisráðherra 5. apríl tengdust fleiri aflandsfélögum. Þar á meðal formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra.  Það gerðu líka Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem  sagði af sér þennan dag,  og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem var í barneignaleyfi og sagðist ekki snúa aftur fyrr en innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hefði lokið yfirferð sinni á hagsmunaskráningu sinni sem borgarfulltrúa.

Margvísleg áhrif

Fjölmiðlar hafa síðasta árið fjallað um mál um hundrað Íslendinga í viðskiptum og stjórnmálum sem koma við sögu í Panamaskjölunum. Áhrifin voru mest í stjórnmálum. Tveir kjörnir fulltrúar sögðu af sér og framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins vék úr starfi. Kosningum var flýtt. Gera má ráð fyrir að kosningabarátta stæði nú sem hæst ef kjörtímabilið hefði ekki verið stytt til að koma til móts við mótmæli almennings. Kosningarnar fóru fram undir lok október. Framsóknarflokkurinn tapaði miklu fylgi frá kosningunum 2013 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi og var áberandi stærstur flokka á þigni. Þá tók við stjórnarkreppa fram í byrjun janúar þar sem erfiðlega gekk að ná saman meirihlutastjórn.