Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Dagur ætlar á hjólastól um bæinn í sumar

30.07.2015 - 10:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri stefnir á að fara um miðborgina á hjólastól fyrir sumarlok. Þannig uppfyllir hann loforð frá því í haust, þegar maður sem bundinn er við hjólastól skoraði á hann að reyna að komast leiðar sinnar um Laugaveg í hjólastól.

Jón Gunnar Benjamínsson birti áskorunina á Facebook, í kjölfar þess að hann reyndi að sinna erindum í miðborginni. Þar reyndi hann að komast inn á tvo staði á hjólastól en tókst ekki, því þar þarf að fara upp þrep til að komast inn. Dagur tók fljótt undir áskorunina og lagði einnig til að Kristín Soffía Jónsdóttir yrði með í för, en hún er formaður ferlinefndar Reykjavíkurborgar. 

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV