Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dæmt til að greiða milljarð vegna Wikileaks

24.04.2019 - 16:40
epa07500608 A person holds a sign during a rally calling for the release WikiLeaks founder Julian Assange, in Sydney, Australia, 12 April 2019. The President of Ecuador, Lenin Moreno, withdrew asylum of Assange, after accusing him of violating international agreements, a special protocol of coexistence and participating in a plot of institutional destabilization. Assange was arrested by British authorities on 11 April 2019.  EPA-EFE/PETER RAE  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag kortafyrirtækið Valitor til að greiða Sunshine Press og Datacell samtals 1,2 milljarða króna eftir að Valitor lokaði fyir greiðslugátt þar sem tekið var við millifærslum til styrktar Wikileaks. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður fyrirtækjanna tveggja, segir jákvætt að dómurinn skuli hafa metið þetta bótaskylt en „það sem er verra er að þarna ýtt til hliðar mati tveggja dómkvaddra matsmanna. Þetta eru því lægri skaðabætur en við höfðum búist við.“

Visa greiðslukortafyrirtækið lokaði á greiðslugátt WikiLeaks árið 2010 þannig að framlög til samtakanna bárust ekki með þeirri leið og Valitor fyrirtæki Visa á Íslandi gerði slíkt hið sama árið 2011.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið óheimilt og stefndi Sunshine Press Productions, sem er dótturfyrirtæki WikiLeaks og Data Cell sem ætlaði að annast greiðslugáttina, Valitor til greiðslu bóta.

Tveir dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að tjón fyrirtækjanna tveggja væri 3,2 milljarðar og sögðu í niðurstöðu sinni að þeir teldu mat sitt á tjóninu vera varfærið. Samkvæmt dómi héraðsdóms er Valitor gert að greiða Sunshine Press Productions 1,1 milljarð en Datacell 60 milljónir. Þá er Valitor einnig gert að greiða allan málskostnað, tæpar tuttugu milljónir króna.

Héraðsdómur klofnaði í afstöðu sinni til bótakröfunnar og skilaði Kjartan Bjarni Björgvinsson séráliti þar sem hann taldi að Datacell og Sunshine Press hefðu ekki fært nægilegar sönnur að fjártjóni sínu. Það bæri að sýkna Valitor af skaðabótakröfunni þar sem ekki væru skilyrði fyrir því hjá dómnum að ákvarða fyrirtækjunum skaðabætur. 

Hinir dómararnir tveir í málinu töldu hafið yfir vafa að fyrirtækin tvö hefðu orðið fyrir tjóni og að umfang þess væri gríðarlega mikið. „Á þeim tíma sem [Valitor] lokaði greiðslugátinni var starfsemi Wikileaks í fullum gangi og vakti gríðarlega athygli,“ segir dómi héraðsdóms og rifjar upp að fyrir tilstilli samtakanna hefðu verið birtar umfangsmiklar upplýsingar sem vöktu heimsathygli og vörðuðu almenning miklu. Þar nægi að nefna upplýsingar tengdar Íraksstríðinu. 

Sveinn Andri Sveinsson, sem hefur rekið málið fyrir Sunshine Press  og Data Cell, segir í samtali við fréttastofu að vissulega sé jákvætt að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri bótaskylt brot. Það sem honum þætti verra væri að mati hinna dómkvöddu matsmanna væri ýtt til hliðar og því væru þetta lægri skaðabætur en búist hafði verið við. „Þetta er há fjárhæð en það hefði verið eðlilegt að dæma hærri fjárhæð.“

Sveinn Andri segir að þeir muni núna fara yfir niðurstöðu dómsins og geri fastlega ráð fyrir því að Valitor geri það líka. Ekki liggi þó fyrir hvort niðurstöðunni verði áfrýjað til Landsréttar. Lögmenn Valitors vildu ekki tjá sig en sögðu von á yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV