Dæmi um að erlendir bankar hafni greiðslum frá Íslandi

10.01.2020 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki hér á landi hafi ekki getað borgað eitthvað af erlendum reikningum sínum síðustu vikur. Tveir bankar í Rúmeníu hafi til að mynda lokað á greiðslur frá Íslandi eftir að Ísland var sett á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Ísland var sett á listann í október, en á honum eru lönd sem starfshópurinn telur að hafi ekki gripið til nægra aðgerða vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Í skýrslu FATF frá 2018 var bent á 51 ágalla á umgjörð og framkvæmd í málaflokknum á Íslandi. 

Fréttastofa veit af dæmi þar sem ekki tókst að borga héðan reikning frá Rúmeníu. Vísir segir að upphæðin hafi verið rúmlega ein milljón íslenskra króna. Greiðslan átti að fara í gegnum Landsbankann, en þar hafi fengist þau svör að greiðslan hafi verið stöðvuð áður en hún fór úr landi því bankarnir úti taka ekki við henni. 

Landsbankinn var ekki með málið til sérstakrar skoðunar þegar fréttastofa leitaði viðbragða þaðan í gær, en velt því upp að slíkt geti gerst þar sem stofnað væri til nýrra viðskiptasambanda. Greiðslur stoppi síður þegar komin er saga á bak við millifærslur aðila á milli landa.

Fréttastofa leitaði viðbragða frá Seðlabankanum. Þar bárust þau svör að um einangruð tilvik séu að ræða þegar viðskiptum hefur verið hafnað. Það sé ekkert sem gefi tilefni til að ætla að íslenskir aðilar séu almennt að lenda í vandræðum með greiðslur til og frá landinu.

Þá hafi Fjármálaeftirlitið fyrir stuttu kallað eftir gögnum frá viðskiptabönkum, kortafélögum, stærstu vátryggingafélögum og stærstu lífeyrissjóðum um áhrifin eftir að Ísland var fært á listann. Tilgangurinn er að fá sem besta mynd að áhrifunum. Fyrirhugað er að endurtaka fyrirspurnina síðar í vetur til sjá megi þróunina.