Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dæmdur í ellefu ára bann fyrir kynþáttaníð

epaselect epa07970016 Brescia's Mario Balotelli (R) reacts after the Italian Serie A soccer match between Hellas Verona and Brescia Calcio at Bentegodi stadium in Verona, Italy, 03 November 2019.  EPA-EFE/SIMONE VENEZIA
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

Dæmdur í ellefu ára bann fyrir kynþáttaníð

05.11.2019 - 17:00
Luca Castellini, formaður ultras-stuðningsmannahóps ítalska fótboltafélagsins Verona, hefur verið dæmdur í ellefu ára bann frá leikjum félagsins. Bannið kemur í kjölfar kynþáttaníðs í garð Mario Balotelli, leikmanns Brescia, í leik liðanna um helgina.

Verona vann 2-1 heimasigur á Brescia í ítölsku A-deildinni um helgina en leikur var stöðvaður snemma í síðari hálfleik þegar Balotelli þrumaði boltanum upp í stúku og gekk af velli eftir að hafa orðið fyrir aðkasti stuðningsmanna vegna kynþáttar síns. Vallarþulur bað áhorfendur að hætta níðinu í garð Balotelli áður en leikur gat haldið áfram. Balotelli skoraði mark Brescia undir lok leiks og fagnaði fyrir framan stuðningsmenn Verona.

Balotelli tjáði sig á samfélagsmiðlum eftir leik þar sem hann sagði stuðningsmönnum Verona að skammast sín. Ivan Juric, þjálfari Verona, lét hafa eftir sér að úlfaldi væri gerður úr mýflugu þar sem aðkastið sem Balotelli varð fyrir hefði ekkert með kynþátt hans að gera.

Luca Castellini, formaður ultras-stuðningsmannahóps Verona, var til viðtals á mánudag þar sem hann sagði hópinn gera til jafns grín að leikmönnum hvort sem þeir eru sköllóttir, síðhærðir, suðrænir eða dökkir á hörund - það hefði ekkert með rasisma að gera. Þetta væri hluti af menningu á svæðinu. Í sama viðtali tók Castellini þó fram að Balotelli gæti þó aldrei orðið fullkomnlega ítalskur vegna uppruna síns frá Gana.

Castellini hefur nú verið dæmdur í bann frá leikjum Verona fram í júní 2030. Í yfirlýsingu frá Verona segir að ummæli Castellinis væru fullkomnlega á skjön við gildi félagsins. Þá skipaði aganefnd ítalska knattspyrnusambandsins Verona að hafa hluta leikvangs síns lokaðan í næsta heimaleik.

Balotelli, sem á 36 A-landsleiki að baki fyrir ítalska landsliðið, tjáði sig enn frekar um málið á Instagram í gær þar sem hann sagði meðal annars: „Vinir mínir, þetta snýst ekki um fótbolta lengur. Þið eruð að tala um félagslegt og sögulegt ástand sem er miklu stærra en þið, þröngsýna fólk. Þið eruð að tapa ykkur. Vaknið, óupplýsta fólk.“

Tengdar fréttir

Fótbolti

Gekk af velli eftir kynþáttaníð

Fótbolti

„Sama þó okkur verði hent úr keppni“

Fótbolti

Kynþáttafordómar og hermannakveðjur

Fótbolti

Tilkynningum um kynþáttaníð fjölgar