Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dæmd í fangelsi fyrir rekstur spilavítis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir karlmenn og ein kona fengu dóm í héraðsdómi í morgun fyrir að reka spilavítið Poker and Play í Skeifunni á árunum 2010 til 2012. Annar mannanna fékk tólf mánaða fangelsi, þar af voru níu skilorðsbundnir.

Hinn maðurinn og konan fengu níu mánaða dóm, þar af sex á skilorði. Þremenningarnir voru ákærðir fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við, nýtt eða aflað sér rúmlega 170 milljóna króna með því að reka fjárhættuspil í atvinnuskyni. 

Dómur féll í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Auk fangelsisdóms var þremenningunum gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna. Við ákvörðun refsingar við litið til þess að brotin frömdu þau í sameiningunni og þau stóðu yfir um lengri tíma. 

Í niðurstöðu dómsins segir að framburður þorra vitna hafi tekið breytingum við meðferð málsins. Vitni greindu frá því í yfirheyrslum hjá lögreglu að ýmist hefði verið gjald við pókerspil, spilavinningar runnið til hússins eða að starfsfólk hefði unnið á staðnum, meðal annars við að bera fram veitingar. Við aðalmeðferð málsins hafi vitni ekki viljað kannast við þessi atvik og sögðu að um félagsstarf hefði verið að ræða. 

Í niðurstöðunni segir einnig að samkvæmt gögnum í kortaposa P&P áhugamannafélags hafi borist greiðslur um kortaskanna félagsins að fjárhæð rúmlega 170 milljóna króna á þessum tveimur árum, frá 2010 til 2012. Þá liggi fyrir að verulegar greiðslur hafi runnið til ákærðu frá félaginu. 

Átta voru handteknir í aðgerðum lögreglu í desember 2012. Aðgerðin er ein sú umfangsmesta sem lögregla hefur ráðist í við rannsókn á fjárhættuspili. Lögregla gerði upptæk rúmlega 550 þúsund krónur í peningaseðlum sem fundust í peningaskáp og frystikistu í húsnæðinu. 

Í dómnum segir að greiðslur inn á bankareikning mannsins sem fékk tólf mánaða dóm námu samtals tæplega nítján milljónum króna. Það þótti því sannað að ákærðu í málinu hefðu rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings en fjárhættuspil er ólöglegt ef þriðji aðili hagnast.