Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dæmafá tækifæri til þátttöku í Samrómi

Mynd: RÚV / RÚV

Dæmafá tækifæri til þátttöku í Samrómi

19.03.2020 - 16:53

Höfundar

Í Morgunþættinum í morgun kom Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur RÚV með fínt samheiti fyrir hið útjaskaða „fordæmalaus“. Þá stakk hún upp á prýðisgóðri dægradvöl í sóttkvínni fyrir þá sem er umhugað um framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi.

Eitt af þeim orðum sem spruttu fram í síðustu viku var fordæmalaus og notað í tíð og ótíma. „Margir voru farnir að ergja sig á þessu og setja fordæmalaus í sama flokk og vegferðina, sem sagt í ruslflokkinn,“ segir Anna Sigríður sem segir annað prýðisgott orð vera á lausu sem hægt sé að nota í staðinn: dæmafár. Svo mælir hún sérstaklega með því að fólk leggi verkefninu Samrómi lið. „Nú er lag þegar fólk hefur rýmri frítíma. Samrómur er verkefni sem Almannarómur, Miðstöð máltækni og Háskólinn í Reykjavík standa að og snýst um að safna lesnum setningum til að kenna tölvum að skilja íslensku.“ 

Allir sem hafa aðgang að síma, tölvu eða spjaldtölvu geta ljáð verkefninu rödd sína, það þarf bara að fara á vef verkefnisins og smella á tala „Þá birtir vefurinn setningu, sem maður les upphátt með eðlilegum hætti. Það vantar allar gerðir af röddum. Með sameiginleg átaki verður hægt að búa til gagnasafn sem nægir til að standa undir þróun í máltækni fyrir íslensku um ókomna tíð.“ Þegar söfnuninni lýkur stendur svo til að gefa gagnasafnið út með opnu leyfi, þannig hverjir sem vilja þróa lausnir fyrir íslenska máltækni geti notað safnið endurgjaldslaust. „Svo er þetta mjög skemmtilegt líka að lesa allar þessar skrítnu setningar, og líka hægt að fara yfir dæmi frá öðrum.“

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Telur ástæðu til að auka fræðslu um íslenskt táknmál

Stjórnmál

Mikilvægt að heyra íslenskt mál sem mest

Íslenskt mál

383 milljónir í máltækni

Menningarefni

Íslenskan í stafrænum heimi!