„Manni líður mjög illa yfir þessu öllu saman,“ sagði Sigrún í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. „Ég vann mest með Sigmundi Davið og dáði hann fyrir margra hluta sakir. Þetta hefur bara verið erfiður tími. Mér finnst þeir of reiðir út í allt og alla.“ Í tengslum við viðbrögð þingmannanna kveðst hún minnast orða móður sinnar úr bernsku. Hún hafi sagt að ef fólk gerði eitthvað af sér þá þýddi ekki að benda á aðra sem hefðu gert það sama. Hver og einn bæri ábyrgð á sinni hegðun. „Mér finnst þetta kannski pínulítið barnalegt, viðbrögðin þeirra,“ sagði hún.
Telur atburði á Klaustri mjög alvarlega
Sigrún sagði að það væri erfitt að horfa upp á það að þingmennirnir væru að benda út og suður. „Mér finnst að þeir eigi bara að taka sökina. Þetta var mjög alvarlegur atburður sem gerðist á þessum fræga bar,“ sagði hún.
Alþingi er ekki venjulegur vinnustaður, segir Sigrún og hún vill ekki taka afstöðu til þess hvort þingmennirnir, sem sátu að sumbli á Klaustri og létu ýmis orð falla um samstarfsfólk á þinginu og fleiri, eigi að segja af sér. Alþingismenn séu kosnir í frjálsum kosningum og hafi kjósendur á bak við sig og á meðan þeir styðji viðkomandi séu þeir enn þingmenn. Hún hefur trú á því að allir geti bætt sig, þannig gangi lífið, að fólk reyni að gera betur í dag en í gær. „En mér finnst að viðbrögðin mættu vera betri og að þeir eigi að hætta því að vera reiðir út í allt og alla og reyna að njóta þess sem gott er og sýna það.“
Telur vænlegra að þingmennirnir sýni auðmýkt
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, var einnig gestur Vikulokanna í morgun. „Það sem myndi skipta almenning miklu meira máli væri að menn sýndu einhverja auðmýkt en ekki þennan hroka sem ég held að flestir upplifi.“ Í tali þingmannanna hafi komið fram mjög leiðinlegt viðhorf til nafngreindra kvenna og kvenna almennt. Benedikt kveðst aldrei hafa orðið var við slíkt tal í þeim hópum sem hann hitti þegar hann geri sér glaðan dag.