
COVID-19 enn í rénun í Kína
Kínversk heilbrigðisyfirvöld birtu einnig nýjar tölur í kvöld. Þar virðist veiran enn í rénun, þar sem tæplega 330 ný tilfelli voru greind í dag og 44 dauðsföll. Langflest tilfellin og dauðsföllin voru í Hubei, þaðan sem veiran er talin eiga uppruna sinn.
Farþegar og áhöfn skemmtiferðaskipsins Diamond Princess fengu að yfirgefa skipið í dag að sögn Guardian. Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að allir farþegar séu nú farnir frá borði eftir þriggja vikna sóttkví. Yfir 3.500 farþegar voru um borð og fengu meira en 700 þeirra COVID-19 veiruna. Fjórir farþegar létu lífið. Áhöfn skipsins fær að fara heim að lokinni tveggja vikna sóttkví í Tókýó reynist áhafnarmeðlimir lausir við veiruna.
Óttaslegin yfirvöld í Karíbahafi
Yfirvöld í ríkjum í Karíbahafinu hafa bannað skemmtiferðaskipum að leggjast að bryggju af ótta við kórónaveiruna. Yfirvöld í Dóminíkanska lýðveldinu neituðu öllum 1.500 farþegum um borð í skipinu Braemer að ganga frá borði. Útgerð skipsins segir þetta of hörð viðbrögð vegna örfárra farþega sem sýni inflúensueinkenni. Þá bíða farþegar um borð í MSC Meraviglia eftir niðurstöðum rannsókna eftir að skipinu var bannað að leggjast að bryggju í Jamaíku og Caymaneyjar.
Alls eru tilfelli veirunnar á heimsvísu orðin rúmlega 83 þúsund. Nærri 2.900 eru látnir af völdum hennar en vel yfir 36 þúsund hafa náð sér samkvæmt heimildum Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum.