Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

COVID-19 enn í rénun í Kína

28.02.2020 - 01:33
epa08247150 Repatriated Filipinos from the Diamond Princess Cruise Ship in Japan onboard buses on the way to New Clark City after arriving at the Clark International Airport in Mabalacat, Pampanga province, Philippines, 26 February 2020. The Philippines is set to repatriate more than 400 Filipinos from the virus stricken Diamond Princess Cruise Ship in Japan via two chartered flights, the Department of Health said.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir tvö þúsund tilfelli COVID-19 veikinnar eru nú staðfest í Suður-Kóreu eftir að tæplega 260 ný tilfelli greindust þar í dag. Yfir 90 prósent tilfellanna eru í borginni Daegu, þeirri fjórðu stærstu í landinu. 13 eru látnir af völdum kórónaveirunnar í landinu.

Kínversk heilbrigðisyfirvöld birtu einnig nýjar tölur í kvöld. Þar virðist veiran enn í rénun, þar sem tæplega 330 ný tilfelli voru greind í dag og 44 dauðsföll. Langflest tilfellin og dauðsföllin voru í Hubei, þaðan sem veiran er talin eiga uppruna sinn.

Farþegar og áhöfn skemmtiferðaskipsins Diamond Princess fengu að yfirgefa skipið í dag að sögn Guardian. Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að allir farþegar séu nú farnir frá borði eftir þriggja vikna sóttkví. Yfir 3.500 farþegar voru um borð og fengu meira en 700 þeirra COVID-19 veiruna. Fjórir farþegar létu lífið. Áhöfn skipsins fær að fara heim að lokinni tveggja vikna sóttkví í Tókýó reynist áhafnarmeðlimir lausir við veiruna.

Óttaslegin yfirvöld í Karíbahafi

Yfirvöld í ríkjum í Karíbahafinu hafa bannað skemmtiferðaskipum að leggjast að bryggju af ótta við kórónaveiruna. Yfirvöld í Dóminíkanska lýðveldinu neituðu öllum 1.500 farþegum um borð í skipinu Braemer að ganga frá borði. Útgerð skipsins segir þetta of hörð viðbrögð vegna örfárra farþega sem sýni inflúensueinkenni. Þá bíða farþegar um borð í MSC Meraviglia eftir niðurstöðum rannsókna eftir að skipinu var bannað að leggjast að bryggju í Jamaíku og Caymaneyjar.

Alls eru tilfelli veirunnar á heimsvísu orðin rúmlega 83 þúsund. Nærri 2.900 eru látnir af völdum hennar en vel yfir 36 þúsund hafa náð sér samkvæmt heimildum Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum.