COVID-19: Búast við fleiri löndum á listann daglega

25.02.2020 - 14:36
Iranian municipality workers spray disinfectant as a precaution against COVID-19 at a wagon of Tehran's public subway in Tehran, Iran, 25 February 2020. According to the Ministry of Health, 95 people diagnosed with coronavirus in the country and fifteen people have died in Iran. The disease caused by the virus (SARS-CoV-2) has been officially named COVID-19 by the World Health Organization (WHO). EPA-EFE/ALI SHIRBAND
Frá Íran, þar sem COVID-19 veiran breiðist hratt út.  Mynd: EPA
Sóttvarnalæknir mun í dag safna upplýsingum um hvort og þá hvaða einstaklingar hafa dvalið á H10 Costa Adeje Palace hótelinu og eru nú komnir til landsins eða eru á leið heim. Búast má við að daglega bætist fleiri lönd á lista yfir viðvarandi smit COVID-19 veirunnar.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Almannavarna vegna ósvissustigs sem lýst hefur verið yfir vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar.

Erfitt að koma í veg fyrir að veiran berist til Íslands

Í skýrslunni segir að Ítalía hafi beitt miklum aðgerðum á flugvöllum til að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið. Þær skimanir hafi ekki skilað árangri og sýni það hversu erfitt er að koma í veg fyrir að smit berist hingað til lands.

Það stafar meðal annars af einkennum veirunnar – vægum einkennalausum sýkingum og löngum meðgöngutíma. Þess vegna megi búast við að í framhaldinu komi upp fleiri hópsýkingar líkt og á Ítalíu.

Ekki mælt gegn ferðalögum til Tenerife að sinni

Nauðsynlegt er að beita öllum aðgerðum sem geta heft eða tafið fyrir útbreiðslu hér á landi. Það felist meðal annars í að mæla gegn ónauðsynlegum ferðum til svæða þar sem kórónaveiran hefur náð útbreiðslu. Hefur það þegar verið gert fyrir ákveðin svæði á Ítalíu en ekki þykir enn tilefni til að mæla gegn ferðum til Tenerife

Fylgst með Íslendingum á hóteli í sóttkví

Fylgst verður grannt með þróun mála á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife þar sem vitað er að minnsta kosti sjö Íslendingar dvelja nú. Segir í skýrslunni að ekki séu vísbendingar um að veiran hafi breiðst þar út en brýnt sé að þeir sem annað hvort eru á svæðinu eða hyggi á ferðalög þangað hugi vel að persónulegu hreinlæti og fylgi fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á svæðinu.

Sóttvarnalæknir mun í dag safna upplýsingum um hvort og þá hvaða einstaklingar hafa dvalið á H10 Costa Adeje Palace hótelinu og eru nú komnir til landsins eða eru á leið heim. Er þeim sem hafa dvalið á hótelinu undanfarnar tvær vikur ráðlagt að halda sig heima í 14 daga í varúðarskyni. Enn sem komið er engin þörf á að aðrir ferðamenn en þeir sem hafa bein tengsl við umrætt hótel fari í sóttkví við heimkomu til Íslands.

Ný lönd bætast við

Í skýrslunni segir jafnframt að búast megi við því að daglega bætist við fleiri lönd á listann yfir viðvarandi smit. Þannig hafa nú greinst tilfelli bæði í Austurríki og Króatíu. Enn sem komið er hefur ekkert smit greinst á Íslandi en tekin hafa verið 35 sýni sem öll reyndust neikvæð.

Landlæknir gefur út ferðaleiðbeiningar

Sóttvarnarlæknir hefur gefið út ráðleggingar vegna ferðalaga til Norður-Ítalíu og Tenerife. Hefur hann varað við ástæðulausum ferðalögum til fjögurra héraða á Norður-Ítalíu en engar viðvaranir eru í gildi fyrir Tenerife. Enn sem komið er nær viðvörunin ekki til skíðasvæða á Norður-Ítalíu. Sjá nánar á vef Landlæknis.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi