Clippers fagnaði sigri í slagnum um LA

epa07942143 Los Angeles Clippers forward Patrick Patterson (R) in action Los Angeles Lakers guard-forward Danny Green (L) against during the NBA basketball game between the Los Angeles Lakers and the Los Angeles Clippers ay the Staples Center in Los Angeles, California, USA, 22 October 2019.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Clippers fagnaði sigri í slagnum um LA

23.10.2019 - 06:14
Margra mánaða bið aðdáenda NBA deildarinnar í körfubolta lauk í nótt þegar meistarar Toronto Raptors tóku á móti New Orleans Pelicans. Eftir æsispennandi leik sem lauk með sigri heimamanna í framlengingu tók við nágrannaslagur Los Angeles liðanna, sem spáð er góðu gengi í deildinni í vetur.

Leikur Toronto og New Orleans var jafn og spennandi allan tímann. Liðin skiptust á forystunni í venjulegum leiktíma og fór svo að þau skildu jöfn að honum loknum, 117-117. Heimamenn áttu meira inni í framlengingunni og höfðu að lokum átta stiga sigur, 130-122. Þeir Pascal Siakam og Fred Van Vleet skoruðu 34 stig hvor fyrir heimamenn, og Siakam tók 18 fráköst að auki. Brandon Ingram fór fyrir liði gestanna með 22 stig.

Kawhi Leonard, sem fagnaði titlinum með Toronto í vor, lék sinn fyrsta leik með nýju liði í Los Angeles slagnum í nótt. Hann leiddi heimamenn í Clippers til sigurs gegn Lakers. Liðunum er báðum spáð velgengni í vetur, og sjá einhverjir veðbankar jafnvel Los Angeles Clippers fyrir sér sem meistara í vor. Gestirnir í Lakers byrjuðu leikinn betur í nótt, en heimamenn sóttu á í öðrum leikhluta og tóku forystuna. Henni héldu þeir allt til enda, þökk sé góðu framlagi frá leikmönnum af varamannabekknum. Lokatölur 112-102 fyrir Clippers.

Kawhi Leonard var eini leikmaðurinn í byrjunarliði heimamanna sem náði tveggja stafa tölu í stigaskori, með 30 stig. Fjórir leikmenn af bekknum skoruðu tíu stig eða meira, þeirra mest Lou Williams sem skoraði 21 stig og gaf auk þess sjö stoðsendingar. Danny Green skoraði 28 stig og tók 7 fráköst fyrir Lakers. Stórstjörnurnar Anthony Davis og LeBron James áttu einnig góðan leik, Davis skoraði 25 stig og tók 10 fráköst, og James skoraði 18 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.