
Clinton útilokar ekki framboð: „Aldrei að segja aldrei“
Clinton greindi frá þessu í útvarpsviðtali við Emmu Barnett á BBC 5. Hún er í upplestrar- og kynningarferð á Bretlandseyjum, til að kynna bók þeirra Chelsea dóttur hennar, The Book of Gutsy Women, eða Bók hinna kjörkuðu kvenna, og voru þær mæðgur báðar gestir Barnetts.
Aldrei að segja aldrei
Aðspurð, hvort hún útilokaði að láta undan og bjóða sig fram á ný sagði Clinton að það ætti aldrei að segja aldrei. Raunar bætti hún um betur og sagði „Aldrei, aldrei, aldrei að segja aldrei." Upplýsti hún Barnett um að hún væri „undir gríðarlegum þrýstingi frá mörgu, mörgu, mörgu fólki um að íhuga það."
Þá viðurkenndi hún fúslega að hún væri að hugsa um þennan möguleika. „Ég hugsa stöðugt um það, hvernig forseti ég hefði orðið og hvað ég hefði gert öðruvísi og hvaða þýðingu það hefði haft fyrir landið okkar og heiminn allan. Þannig að auðvitað íhuga ég það [að bjóða mig fram aftur], ég er alltaf að íhuga það."
Og hver sem á endanum verður forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, sagði Clinton, þá á viðkomandi mikið verk fyrir höndum, einkum ef hann eða hún hefur betur. Arftaka Trumps bíði nefnilega það erfiða verk að laga allt það sem eyðilagt hafi verið í hans valdatíð.