Býst við niðurskurði hjá ríkisstofnunum

25.03.2019 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, segir að gera megi ráð fyrir niðurskurði hjá stofnunum vegna aðhaldskröfu og lækkunar launabóta í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir helgi. Ef launahækkanir fara fram úr launabótum gæti þurft að fækka fólki og draga úr þjónustu hjá stórum stofnunum í heilbrigðisþjónustu.

Henný segir að afgangur í ríkisrekstri undanfarin ár hafi fyrst og fremst grundvallast á miklum umsvifum á uppgangstímum. Þegar horft sé framhjá því hafi ríkisreksturinn verið í talsverðum járnum. Ennfremur hafi verið gengið of langt í að rýra tekjustofna ríkisins t.d. með afnámi auððlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og neysluskatta.

Afleiðingarnar megi sjá núna þegar fer að hægjast um og þá þurfi að koma til niðurskurðar til að halda afkomunni innan fjármálastefnunnar
 
„Og það er ekki annað að sjá en að þetta raungerist í þessari áætlun og það sér maður m.a. í því að sett er fram almenn aðaldskrafa til viðbótar eru launabætur til stofnana eru lækkaðar og það mun væntanlega að þýða það að stofnanir þurfa þá sjálfar að mæta því með einhverjum hætti þá væntanlega með niðurskurði.“   
 
Launabætur, bætur vegna launa og verðlags, er framlag sem stofnanir fá á fjárlögum til að mæta launahækkunum. 

Henný segir að lækkun launabóta gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir t.d. stofnanir í heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu þar sem laun eru hátt hlutfall rekstrarkostnaðar.  

„Það er í raun og veru verið að lækka launabætur úr því að vera eitt og hálft prósent umfram verðlag nður í hálft prósent umfram verðlag. Nú ef niðurstöður kjarasamninga verða svo umfram það þá þurfa stofnanirnar sjálfar að mæta því. 

Það liggur í augum uppi að þar sem launakostnaður er hár þá þýðir það að það þarf annaðhvort að fækka fólki eða draga úr þjónustu með öðrum hætti.“