Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Býst við að vera fangelsuð fyrir 82 ára afmælið

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons

Býst við að vera fangelsuð fyrir 82 ára afmælið

03.12.2019 - 15:02

Höfundar

Sextíu og sex ár skilja leikkonuna Jane Fonda og aðgerðarsinnann Gretu Thunberg að í aldri en þær eiga það sameiginlegt að verja hverjum föstudegi í hávær mótmæli. Thunberg berst gegn því að þurfa að lifa með afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum en Fonda mótmælir því hún vill ekki deyja, vitandi að hún var hluti vandans.

Leggstu á hægri hliðina. Styddu með olnboga eða báðum höndum í gólfið svo þú haldir búknum uppi. Hafðu báða fætur beina og láttu þann hægri hvíla í jörðinni og lyftu þeim vinstri. Þannig gerir þú Jane Fonda.

Spandexgalli, blásið hár og litríkar legghlífar

Þessi æfing er á meðal fjölmargra sem Fonda kennir í sínu frægasta líkamsræktarmyndbandi, „Jane Fonda: Workout“ frá 1982, mest seldu VHS spólu allra tíma. Í myndbandinu er Fonda í litríkum eróbikkgalla úr spandexi og er með vel blásið og risastórt hár, sem var auðvitað hámóðins á þessum árum. Þá voru líkamsræktarstöðvar helst sóttar af körlum og myndböndin voru því ætluð konum sem vildu hreyfa sig heima í stofu. Skemmst er frá því að segja að myndböndin slógu rækilega í gegn og Fonda með. Þegar hún gerði fyrsta eróbikk-myndbandið var hún 45 ára gömul, hafði þegar unnið til tvennra Óskarsverðlauna og snúið stórum hluta bandarísku þjóðarinnar gegn sér.

Sjálfsvíg móður og áunnið lystarstol

Jane Fonda fæddist 21. desember 1937. Foreldrar hennar voru leikarinn Henry Fonda og  glamúrgellan Frances Ford Seymore en uppvöxtur Fonda var þó síður en svo sveipaður dýrðarljóma. Móðir hennar svipti sig lífi þegar Fonda var aðeins 12 ára og faðir hennar ól hana upp við þær hugmyndir að útlit hennar væri það eina sem skipti máli. Fonda þróaði með sér anorexíu sem hún glímdi við langt fram á fullorðinsár.

Hún varð snemma fyrisæta og hafði tvisvar birst á forsíðu Vogue þegar hún hóf feril sinn sem leikkona á Broadway árið 1960. Átta árum síðar lék hún Barbarellu í samnefndri kvikmynd Roger Vadim og festi sig í sessi sem eitt mesta kyntákn sinnar kynslóðar. Í millitíðinni hafði hún leikið í verðlaunamyndum og fengið góða dóma fyrir leik sinn. Ljóst var að það var meira í hana spunnið. Til að mynda fékk hún frábæra dóma fyrir leik sinn í They Shoot Horses, Don’t They, sem kom út ári síðar, og nældi hún sér í sína fyrstu Óskarstilnefningu. 

FILE - In this 1972 file photo, American actress and activist Jane Fonda is surrounded by soldiers and reporters as she sings an anti-war song near Hanoi during the Vietnam War in July 1972. A Vietnamese doctor said that a Vietnam war underground bunker found at a Hanoi hotel in the summer 2011 sheltered Fonda, American folk singer Joan Baez and other foreign war correspondents during the Christmas Bombings in 1972. (AP Photo/NIHON DENPA NEWS, File) JAPAN OUT\r\r-----------------------------\r\r\rHow Jane Fonda’s 1972 trip to North Vietnam earned her the nickname ‘Hanoi Jane’\rBy Colby Itkowitz\rSeptember 21, 2018 \rhttps://www.washingtonpost.com/news/retropolis/wp/2017/09/18/how-jane-fondas-1972-trip-to-north-vietnam-earned-her-the-nickname-hanoi-jane/?noredirect=on&utm_term=.20e4803cf6b7\r
 Mynd: Manhai - Flickr
Jane Fonda ásamt hermönnum í Víetnam1972

Látlaus bylting heilbrigðismerki

Á sama tíma var Fonda virkur aktívisti. Hún studdi baráttu svartra Bandaríkjamanna fyrir borgaralegum réttindum og hernám bandarískra indjána á fangaeyjunni Alcatraz í San Francisco-flóa árið 1969. Hún lýsti sig femínista og ættleiddi óformlega dóttur fangelsaðra meðlima Svörtu pardusanna. Í viðtali við CBC um Svörtu pardusanna sagði hún látlausar byltingar heilbrigðismerki, hvort sem er meðal einstaklinga eða þjóða.

En það voru ekki aðgerðir Fonda heima fyrir sem vöktu mest umtal heldur ferðalag hennar til Víetnam árið 1972. Hún hafði verið virk í baráttunni gegn stríðinu heima fyrir, ferðast milli herbyggða á Vesturströndinni til að ræða við hermenn um yfirvofandi ferðalög þeirra og safnað fé fyrir samtök fyrrverandi hermanna gegn stríðinu. Í Víetnam var hins vegar tekin mynd af henni þar sem hún sat á stóru skotvopni sem norður-víetnamski herinn notaði til að skjóta niður herflugvélar.

Ljósmyndin vakti mikla reiði meðal marga Bandaríkjamanna sem gáfu henni viðurnefnið Hanoi Jane.

„Góða nótt, tík“

Fonda hefur ítrekað beðist afsökunar á myndinni. Hún telur að hugsanlega hafi hún verið notuð sem áróðurstæki þegar hún var leidd til sætis á byssunni en hefur sagt að það geri svikin við föðurland sitt engu minni. Það er þó hennar eina eftirsjá vegna ferðarinnar. Á meðan á henni stóð sá hún um nokkrar útsendingar hjá útvarpinu í Hanoi þar sem hún hvatti bandaríska hermenn til að láta af árásum sínum, heimsótti bandaríska stríðsfanga og sá áhrif stríðsins á landið með eigin augum. 

Hatrið á Hanoi Jane lifir þó enn. Í grein The National frá 2004 skrifar Carol Burke um langlífa hefð:

Áður en gengið er til hvílu í skóla bandaríska sjóhersins æpir lágt settur kadett: „góða nótt,“ til þess háttsettasta í skipshöfninni og skipherrann svarar: „góða nótt”.

Bylgja „góðra nótta” fylgir svo niður tignarröðina. Þegar þessum helgisið er lokið æpir kadettinn aftur eitt loka góða nótt: „Góða nótt, Jane Fonda” og þá svarar öll skipshöfnin af eldmóði: „Góða nótt, tík”.

Fram að þessu hafa köllin einfaldlega lokað deginum með virðingarvotti til stigveldisins, þar sem sá lægst setti sýnir hærra settum leiðtogum sínum virðingu. Það minnir alla á stífan strúktúr skólans, sem erfðist frá breskum drengjaskólum á við Eton þar sem efri bekkingar drottna yfir þeim yngri. 

Kadettinn leikur hlutverk barns sem sem flytur foreldrum sínum kveðju hvert kvöld. En síðustu samskiptin, samhljóma formælingin þjónar öðru hlutverki. Uppgerðarkveðjan til Fonda minnir jafnvel ómerkilegasta kadettinn að hann er innanbúðarmaður með sameiginlegri fyrirlitningu á henni, sem er utangarðs.

Ný kynslóð femínista með úfið hár

Fyrir nokkrum árum kom í ljós að yfirvöld höfðu njósnað um Fonda á þessum tíma, hlustað á símtöl og haft gætur á ferðum hennar. Hún var handtekin á Hopkins-flugvellinum í Cleveland árið 1970, grunuð um fíkniefnasmygl, en hún segist hafa fengið þær upplýsingar að handtökuskipunin hefði komið frá Hvíta húsi Nixon. Á myndinni sem tekin var af henni við handtökuna réttir hún upp hnefann en þessi mynd vakti ekki reiði heldur mótaði hún nýja kynslóð femínisma. Sjúskuð hárgreiðslan sem hún hafði fengið í miðjum skilnaði við fyrsta eiginmann sinn, Roger Vadim, varð að tískufyrirbæri. Hún hélt greiðslunni fyrir hlutverk sitt sem gleðikonan Bree í kvikmyndinni Klute og rétt eins hópar kvenna áttu eftir að biðja um „The Rachel“ á hárgreiðslustofum áratugum síðar báðu bæði konur og karlar um „The Klute.“

Fonda hætti aldrei að vera aðgerðarsinni og oftar en ekki endurómaði það í kvikmyndum hennar þó svo að áhorfendur hafi kannski ekki alltaf verið meðvitaðir um það. Þannig er myndin 9 to 5 til dæmis byggð á samtökum með sama nafni sem vinna að réttindum kvenna í atvinnulífinu en myndin segir frá þremur konum, leiknum af Jane Fonda, Lily Tomlin og Dolly Parton, sem hefna sín á karlrembunni yfirmanni sínum. Myndin er ein af tekjuhæstu gamanmyndum allra tíma. 

Skutu fast á Donald Trump á Emmy-verðlaunahátíðinni

Fonda er enn að leika og það með Lily Tomlin, í þáttaröðinni Grace and Frankie, þar sem aðalhetjurnar hefja sambúð eftir að eiginmenn þeirra koma út úr skápnum á gamalsaldri. Af því tilefni voru þær fengnar til að kynna Emmy-verðlaunin árið 2017 ásamt vinkonu sinni úr 9 to 5, fyrrnefndri Dolly Parton, og þær nýttu tækifærið til að mótmæla Donald Trump, þá nýkjörnum Bandaríkjaforseta. 

Hér hefur auðvitað verið stiklað á stóru en lykilatriðið er að Jane Fonda, þrátt fyrir frægð sína og frama, hefur aldrei hætt að vera aðgerðarsinni. Og nú, á níræðisaldri, fer hún á hverjum föstudegi og mótmælir fyrir framan alþingishúsið í Washington DC. Hún mótmælir aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum og tekur yfirleitt með sér fræga vini, Sam Waterston, Ted Danson, Catherine Keener og Rosanna Arquette hafa öll látið sjá sig sem og Ben Cohen og Jerry Greenfield en þeir tveir síðarnefndu eru kannski best þekktir af fornöfnunum Ben og Jerry. 

Hnefinn enn á lofti eftir fimm handtökur

Jane hefur verið handtekin vegna mótmælanna allavega fimm sinnum, og hefur sagst gera ráð fyrir því að eyða 82 ára afmæli sínu, laugardeginum 21. desember næstkomandi, í fangelsi. Hún lætur handtökurnar lítið á sig fá. Í myndbandi frá einni slíkri í október sést hún smeygja hægri hendi úr plastinu sem hún er handjárnuð með, lyfta upp hnefa, rétt eins og á myndinni í sinni fyrstu handtöku og smeygja henni svo aftur til baka. 

„Hverju hefurðu að tapa?“ spyr Jane Fonda. Sextíu og sex ár skilja hana og Gretu Thunberg, andlit loftslagsbaráttunnar, að í aldri en á meðan Thunberg berst gegn því að þurfa að lifa með afleiðingum loftslagsbreytinga af manna völdum berst Fonda því hún vill ekki deyja, vitandi að hún var hluti vandans. En svo, eins og hún sagði sjálf fyrir mörgum áratugum, eru byltingar líka heilbrigðismerki.

Anna Marsibil Clausen fjallaði um Jane Fonda í Lestinni og má hlýða á alla umfjöllunina í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Jane Fonda handtekin á þinghúströppum

Sjónvarp

Jane Fonda áttræð í kostulegri ástarsögu