Byssan sem Van Gogh skaut sig með boðin upp

17.06.2019 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Skammbyssa sem hinn frægi hollenski málari Vincent Van Gogh er talinn hafa notað til að taka eigið líf verður boðinn upp í París í Frakklandi á miðvikudaginn. Byssan hefur verið kölluð frægasta vopn listasögunnar.

Hún er af Lefaucheux-gerð, með sjö millimetra hlaupvídd. Búist er við því að allt að því 60 þúsund evrur fáist fyrir byssuna sögufrægu.

Van Gogh fæddist árið 1853 í bænum Zundert í suðurhluta Hollands. Hann tilheyrði hópi póstimpressjónista en þróaði með sér einstakan stíl og er talinn einn áhrifamesti listmálarinn í vestrænni myndlist.

Sérfræðingar telja að Van Gogh hafi skotið sig með henni árið 1890 í nágrenni þorpsins Auvers-sur-Oise norður af París en þar eyddi hann síðustu mánuðum 37 ára langrar ævi sinnar.

Bóndi nokkur gekk fram á byssuna árið 1965 á enginu sem Van Gogh er talinn hafa skotið sig. Ekki eru þó allir sammála um að listmálarinn hafi tekið eigið líf og halda sumir því fram að hann hafi orðið fyrir slysaskoti er tveir drengir léku sér með byssuna.

Samkvæmt prófunum vísindamanna lá hún þar í 75 ár, sem bendir til þess að um sama vopn sé að ræða. Hún hefur meðal annars verið sýnd í Van Gogh-safninu í Amsterdam.

Van Gogh seldi aðeins eitt málverk á meðan hann lifði, Rauðu vínekruna við Arles, sem hann málaði árið 1888. Afar sjaldgæft er að verk hans séu boðin upp og hafa 12 þeirra selst á meira en 30 milljónir dollara. Van Gogh gerði um 2.000 myndir á ævi sinni, þar af um 900 málverk. Þau eru flest til sýnis á söfnum um allan heim.

Mynd með færslu
 Mynd: Vincent Van Gogh
Rauða vínekran við Arles (1888).

Auk málverka sinna er Van Gogh mörgum kunnur fyrir að skera af sér eyrað árið 1888 eftir heiftarlegt rifrildi við góðan vin sinn, franska málarann Paul Gaugin. Van Gogh bauð vændiskonu eyrað að gjöf og var lagður inn á geðsjúkrahús í ár eftir uppátækið. Þar málaði hann margar af sínum þekktustu myndum, á borð við Stjörnubjarta nótt.

Mynd með færslu
 Mynd: Vincent Van Gogh
Stjörnubjört nótt (1889).
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi