Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Býsna hröð atburðarás og mikill jarðhiti

Mynd með færslu
 Mynd: flightradar24.com
Þetta er ekki eldgos en býsna hröð atburðarás og mikill jarðhiti, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður um nýja sigketilinn í Öræfajökli. Magnús er í flugvél Isavia við mælingar á Öræfajökli og Bárðarbungu. Stóri jöklamælingadagurinn er í dag.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi vegna vísbendinga um aukna virkni í Öræfajökli í gær. Gervihnattamyndir og myndir úr farþegaflugvél sýndu að nýr sigketill hefði myndast í Öræfajökli.

Magnús Tumi er í flugvél Isavia sem getur mælt snið eftir jökulyfirborði og breytingar á jöklinum. Vélin lagði af stað í birtingu í morgun og flaug yfir Öræfajökul og Bárðabungu en lenti í hádeginu á Höfn í Hornafirði. 

„Það sem við sjáum á meðan við erum búin að mæla, þá er ketillinn sem hefur verið að myndast síðustu vikur að stækka, hann er svona 21-25 metrar, við fáum 23 metra og hann er svona 800 metrar í þvermál. Og það eru í honum ferskar sprungur norðan og austan megin.“  

„Svo sáum við líka að Kvíáin virðist vera stærri en aðrar ár og vatnið virðist leka beint undan katlinum þangað niður eftir. Og um þetta má kannski segja: þetta er ekki eldgos en þetta er býsna hröð atburðarás, mikill jarðhiti, þetta er býsna öflugt, þetta er mikil bráðnun á stuttum tíma.“ 

„Það verður að fylgjast mjög vel með þessu. Hann er nú ekki orðinn það stór þessi ketill að hann geti farið að loka inni vatn, en ef hann heldur áfram svona þá gæti þarna farið að myndast ketill sem að geymir vatn og sendir svo frá sér hlaup. En við skulum bara bíða og sjá hvað tíminn leiðir í ljós.“

Þið eruð á Hornafirði, hvert eru þið að fara núna? „Ja, þetta er nú stóri jöklamælingadagurinn, gott veður og annað. Við fórum á Bárðarbungu líka og mældum sigkatla þar. Það stendur gufa upp úr einum sigkatlinum gegnum jökulinn. Það er nú reyndar ekki nýtt, það er búið að gera það í sumar og aðeins í fyrra líka, og síðan er dýpsti ketillinn þar orðinn 50 metra djúpur.“

Eigið þið eftir að mæla eitthvað meira? „Við eigum eftir að mæla Mýrdalsjökul og Kötlu. Við munum reyna að gera það núna á bakaleiðinni, svo munum við líta aftur á Öræfajökul og hugsanlega endurtaka einhverjar mælingar þar.“   
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV