Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Byrjaður að skrifa skilaboð til ástvina

14.08.2015 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
„Þegar við lentum þá fögnuðum við bara eins og heimsmeistarar. Þetta var algjör snilld þegar við lentum," segir Steinþór Jón Gunnarsson, sem var farþegi í flugvél sem nauðlenti á akvegi undir Súðavíkurhlíð í gær. Vélin var nýkomin í loftið þegar hún missti skyndilega afl.

Flugmaðurinn Egill Ari Gunnarsson er yngri bróðir Steinþórs, en hann sýndi framúrskarandi hæfni þegar honum tókst að lenda vélinni. „Hann er bara nýkominn með einkaflugmannsprófið. Þannig að það er bara ótrúlegt að hann hafi getað gert þetta," segir Steinþór.

„Við vorum bara nýlagðir af stað. Annars hefði farið illa ef við hefðum verið yfir Djúpinu. Þannig að það var lán í óláni að þetta gerist þarna," segir Steinþór.

Náði bara að skrifa E
Vélin var í um það bil þúsund feta hæð þegar hún fór skyndilega að lækka flugið mjög hratt. Þeir sneru strax við og í átt að landi.

„Svo stefndum við bara beint á klettana. Það var annað hvort að fara í klettana eða í fjöruna," segir Steinþór.

„Ég var byrjaður að panikka svolítið. Þá snýr bróðir minn sér til mín og segir bara: Hættu þessu. Og þá hætti ég bara," segir Steinþór en tekur fram að á þessum tímapunkti hafi hann verið byrjaður að skrifa skilaboð til ættingja sinna og vina.

„Svo þegar við fórum að skoða þetta eftir á þá hafði ég skrifað niður einn staf. Ég var byrjaður að skrifa E. Væntanlega fyrir ég eða elska eða eitthvað," segir hann.

Hefðum farið beint á bílinn“
Steinþór segir að bróðir hans hafi haldið rónni allan tíma og skyndilega hafi þeir „allt í einu verið komnir á götuna og lentir," sem hafi verið einstök upplifun.

Steinþór tekur fram að sem betur fer hafi verið fámennt undir Súðavíkurhlíð. „Það var engin umferð á veginum. Sem betur fer. Annars hefðum við farið beint á bílinn. Það tók okkur einhver hundruð metra að stöðva vélina, hún fór það hratt niður. Svo stoppar vélin ekki fyrr en svona tvö hundruð metrum frá Hamarsgatinu, sem er semsagt göngin á milli Súðavíkur og Ísafjarðar," segir hann og tekur fram að þetta hafi verið líkast James Bond spennumynd.

Fékk mest á mömmu
Steinþór segir að upplifunin hafi ekki alveg náð að síast inn fyrr en síðar um kvöldið. „Ég keyrði bara suður með dóttur minni og mömmu minni stuttu síðar. Ég held ég hafi fengið mestu útrásina þar," segir hann. „En svo er þetta að kikka inn seint í gærkvöldi. Og í dag er maður eiginlega bara búinn á því andlega."

„En ég held að þetta hafi mest fengið á móður okkar," segir hann.

Vélin er nú komin til Ísafjarðar til rannsóknar, en ekki liggur fyrir hvað olli því að hún missti afl.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV