Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Býr í torfbæ á sumrin á Borgarfirði eystra

18.06.2018 - 09:40
Hús úr torfi eru ekki til meiri vandræða en timburhús, segir Elísabet Sveinsdóttir sem býr í einu slíku á Borgarfirði eystra á sumrin. Henni finnst hvergi betra að vera jafnvel þó ferðamenn eigi það til að gægjast inn um glugga. Hún verður níræð á næsta ári og veit ekkert betra en að koma heim í fjörðinn fagra þar sem allir þekkja hana sem Stellu á Lindarbakka.

„Mikið er gott að vera komin. Maður býður eftir þessu allan veturinn að komast aftur. Alltaf þarf maður að vita allt sem skeður hérna. Vonandi get ég verið hér í allt sumar,“ sagði Stella þegar hún steig út úr bílum, komin heim til Borgarfjarðar. Húnr er þar fædd og uppalin en flutti burt og keypti Lindarbakka sem sumarbústað ásamt manni sínum heitnum Skúla Ingvarssyni árið 1979. Hún býr þar lungann úr sumrinu í húsinu sem er að mestu úr torfi og grjóti.

Stella hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og alltaf er fólk jafn áhugasamt um húsið. „Þetta er bara gamalt hús. Svona hús voru mörg hérna með fram sjónum. Þetta voru hús sem voru byggð um aldamótin. Þetta er síðan 1899. Þetta er síðasta húsið sem er eftir og frændi minn sagði það þegar við keyptum þetta. Ætlar þú að fara að kaupa þessa moldarhrúgu. Hann vorkenndi mér bara. Það voru náttúrlega mörg handtökin en það voru ekkert meiri handtök af því að vera í torfi heldur en í timbri. Það er ekki nein staðar bleyta. Af því að það er kjallari líka og það er gustur upp um kjallarann,“ segir Stela.

Hún hitar húsið upp með Sólóvél og rafmagnsofnum eftir þörfum. „Það er ekkert meiri umhirða um þetta hús heldur en önnur það er bara öðruvísi efni sem er notað. Það er slegið einu sinni á ári og svo svona klippt með fram eldhúsglugganum svo það vaxi ekki fyrir gluggann.“

Ferðamenn sem koma til Borgarfjarðar halda gjarnan að húsið sé safn. „Það er labbað voða mikið hér í kring og svo er bankað upp á og svo verður fólk svolítið kindarlegt ef ég segi að þetta sé sumarbústaður,“ segir Stella. Hún fær marga í heimsókn ekki síst Borgfirðinga. Sumir banka upp á og þá bíður Stella fólki að skrifa í gestabók. „Ég á einar átta eða tíu gestabækur fullar skrifað á bæði kínversku og hebresku og svona ýmis mál sem enginn skilur. En ég er ekki með neinar gestamóttökur eða neitt. Ég er bara hérna að skemmta sjálfri mér. Tala við annað fólk og bara lifa lífinu. Þegar allt er gert fyrir mann þá á maður nú að reyna að njóta þess,“ segir Elísabet Sveinsdóttir á Lindarbakka.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV