Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Byggja þar sem áður voru þorp Róhingja

10.09.2019 - 04:39
Erlent · Asía · Róhingjar
A Rohingya refugee woman poses for a photo at Cox's Bazar refugee camp in Bangladesh on January 27, 2018. As the rohingya people are refused from citizenship in myanmar were deprived from basic needs includes health, education result as most of were
Kona á flótta frá Mjanmar. Mynd: UN Women
Þorp Róhingja hafa verið jöfnuð við jörðu og húsnæði fyrir ríkisstarfsemi byggð ofan á rústirnar. Stjórnvöld í Mjanmar hafa ávallt neitað því að hafa byggt ofan á rústir þorpa Róhingja í Rakhine-héraði en úttekt breska ríkisútvarpsins dregur upp aðra mynd. Minnst fjörutíu prósent af þeim þorpum sem eyðilögðust árið 2017 hafa nú verið algjörlega jöfnuð við jörðu.

Yfir 700 þúsund Róhingjar hafa flúið Mjanmar frá því ofsóknir hersins gegn þeim hófust í ágúst árið 2017. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað ofsóknirnar skólabókardæmi um þjóðernishreinsanir. Í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að mjanmarski herinn hafi beitt nauðgunum og annars konar kynferðislegu ofbeldi sem pyntingum. Þá brenndi herinn hús Róhingja og börn sem reyndu að flýja voru neydd til að fara aftur inn í brennandi húsin.

Róhingjar, sem flýðu frá Mjanmar til Bangladess, vilja ekki snúa aftur heim fyrr en öryggi þeirra er tryggt og þeim gefin loforð um ríkisborgararétt í Mjanmar. Þá vilja Róhingjar að þeir sem ábyrgir eru fyrir voðaverkunum verði látnir svara til saka.