Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Byggingarleyfi meðferðarkjarna samþykkt

10.10.2018 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Byggingarleyfi fyrir nýjan meðferðarkjarna Landspítalans var samþykkt á fundi byggingarfulltrúans í Reykjavík í gær. Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin í uppbyggingunni við Hringbraut.

Meðferðarkjarninn verður um 69 þúsund fermetrar og verður þar sem gamla Hringbraut er núna. „Hann tekur upp svæðið milli Barnaspítalans og Kvennadeildar og niður að Læknagarði,“ segir Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri NLSH. Gert sé ráð fyrir að lokað verði fyrir umferð um götuna upp úr áramótum. Nákvæm dagsetning liggi ekki fyrir. 

Í tilkynningu kemur fram að á meðferðarkjarnanum verði gerðar sérhæfðar aðgerðir, rannsóknir og annast sjúklinga. Stuðst verði við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu. Kröfur um aðbúnað séu sambærilegar og í nýjum sjúkrahúsum í nágrannalöndunum.

Samþykkt byggingarleyfisins hafi verið í samræmi við umsókn NLSH ohf. Corpus3 hönnunarhópsins um byggingarleyfi. Hópinn mynda níu innlend og erlend hönnunarfyrirtæki sem eru aðalhönnuðir hússins. Fyrsta skóflustungan verður tekin á laugardag á opnu svæði ofan við Læknagarð. 

Meðferðarkjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss og áhersla lögð á að greiðar leiðir verði til annarra starfseininga spítalans með tengigöngum og tengibrúm. Allar sjúkrastofur legudeilda verða einbýli með sér snyrtingu og góð aðstaða fyrir aðstandendur á sjúkrastofum og legudeildum, segir í tilkynningu. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV