Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Býður sig fram til forseta Rússlands

19.10.2017 - 00:03
FILE - In this Saturday, Nov. 29, 2003 file photo, Russian President Vladimir Putin, left, speaks with Lyudmila Narusova, right, widow of former St. Petersburg mayor Anatoly Sobchak, and Sobchak's daughter Ksenia, as he visited the grave of Anatoly
Ksenia Sobchak er fyrir miðri mynd en á myndinni er einnig Lyudmila Narusova, móðir hennar, og Vladimir Putin, forseti Rússlands. Mynd: AP
Þekkt rússnesk sjónvarpskona tilkynnti í dag að hún ætli að bjóða sig fram til forseta Rússlands í kosningunum á næsta ári. Hún er dóttir fyrrverandi borgarstjóra Sankti Pétursborgar, sem réð Vladimir Pútín, núverandi forseta, sem aðstoðarmann.

„Ég heiti Ksenia Sobchak. Ég er 36 ára gömul og eins og hver annar rússneskur borgari, hef ég rétt til að bjóða mig fram til forseta,“ sagði Sobchak í ávarpi sem hún birti á vefsíðu sinni í dag.

Sobchak er þekkt sjónvarpskona í Rússlandi - stjórnaði skemmtiþáttum - og kom mörgum á óvart fyrir nokkrum árum þegar hún tók þátt í mótmælum gegn Pútín forseta. Pútín tengist hins vegar fjölskyldu hennar, því faðir Sobchack, þá borgarstjóri í Sankti Pétursborg, réð Pútín á tíunda áratug síðustu aldar sem aðstoðarborgarstjóra.

Sobchak segist ætla að sækja fylgi til óánægðra kjósenda og segist styðja stjórnarandstöðuna í Rússlandi - en álitsgjafar þar eystra hafa hins vegar bent á að framboð hennar muni einfaldlega kljúfa stjórnarandstöðuna - og það komi stjórnarherrum í Kreml vel - sumir hafa gengið svo langt að segja að Pútín hafi vegna þessa lagt blessun sína yfir framboð Sobchaks. Pútín hefur sjálfur ekki sagt neitt um hvort hann bjóði sig fram í kosningunum, sem verða í mars á næsta ári. 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV