Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Búvörusamningar samþykktir á Alþingi

13.09.2016 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Búvörusamningar voru samþykktir sem lög frá Alþingi í dag með 19 atkvæðum gegn 7. Breytingatillaga þess efnis að styrkir falli niður til þeirra sem stundi dýraníð var felld með einu atkvæði. Tuttugu þingmenn voru fjarverandi eða með fjarvist við atkvæðagreiðsluna.

Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði gegn samningunum og það gerði líka þingflokkur Bjartrar framtíðar. Þau Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, sátu hjá við lokaatkvæðagreiðslu. 

Breytingartillaga Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um að ganga alla leið, þannig að allir styrkir falli niður til þeirra sem stundi dýraníð með einhverjum hætti var felld með aðeins einu atkvæði en fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Tillaga meirihlutans sem gengur ekki jafn langt og tillaga Lilju Rafneyjar en bregst við dýraníði var samþykkt að viðhöfðu nafnakalli með 42 atkvæðum, 2 þingmenn Sjálfstæðisflokks sátu hjá. Um tuttugu þingmenn voru ýmist fjarverandi eða með fjarvist við þessa atkvæðagreiðslu. Þeirra á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. 
 

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV