Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Búvörusamningar haldi matarverði niðri

04.03.2016 - 18:42
Mynd með færslu
Eiginkona forsætisráðherra upplýsti á Facebook að hún ætti félag í Bretlandi sem notað væri til að halda utan um arf hennar. Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir undarlegt hvernig forseti ASÍ gengur fram í gagnrýni sinni á búvörusamningana. Ekki væri gott ef sömu aðferðir væru notaðar í annars konar umræðu með því að til dæmis krefjast ótakmarkaðs aðgengis að ódýru vinnuafli.

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, hefur gagnrýnt nýgerða búvörusamninga. Þeir séu ekki hagstæðir neytendum auk þess sem ekki hafi verið haft samráð við sambandið við gerð þeirra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir þetta ekki í fyrsta sinn sem tilteknir aðilar gagnrýni búvörusamninga. „En mér finnst nú í sjálfu sér undarlegt með hvaða hætti til dæmis forseti Alþýðusambandsins gengur fram í þessu máli. Má þá vænta þess að formaður Bændasamtakanna fái sæti við borðið þegar ASÍ eða félög þess eru að semja um sín kaup og kjör og vinnuaðstæður?“

SIgmundur Davíð segir að samningurinn haldi matvælaverði niðri, spari gjaldeyri og haldi byggð um allt land, auk þess sem samið er við bændastéttina um kaup og kjör. Og við erum að gera henni kleift að framleiða góð, örugg matvæli úr innlendum auðlindum á samkeppnishæfu verði. Þannig að þetta eru svo sannarlega jákvæðir þættir.

Svipað og að vilja ódýrt vinnuafl

Sigmundur segir undarlegt að menn ráðist sérstaklega á bændur meðan samstaða sé um að aðrir stéttir semji um kaup sín og kjör. Ekki væri gott ef sömu aðferðir væru notaðar í samningum annarra stétta. „Ef menn til dæmis færu að skammast yfir því að það væru of miklar hindranir í að flytja inn ódýrt vinnuafl, og formenn einhverra samtaka segðu: „Það er alveg ómögulegt að vera með þessar hindranir á ódýrt erlent vinnuafl, það er ekki gott fyrir neytendur.“ Menn færu þannig milli stétta að takast á með þessum hætti, það væri ekki gott fyrir neinn. Það sem er gott fyrir samfélagið allt er að allar stéttir vinni saman og standi saman. Þess vegna þótti mér dapurlegt að sjá þessi viðbrögð forseta ASÍ. 

Sigmundur Davíð segir samning mun betri kost fyrir neytendur en óheftur innflutningur á erlendum matvælum. „Það væri hægt að færa sömu rök fyrir því að neytendur ættu að fá alltaf aðgang að öllu því ódýrasta, ódýrasta vinnuaflinu, ódýrasta hverju sem er, ef að menn tryðu á þessa frjálshyggjustefnu. Þá væri ekki verið að setja alla þessa vinnulöggjöf eða gera alla þessa kjarasamninga til að verja stöðu og kjör ólíkra stétta. Þá væri það bara frelsið sem réði. En ég efast um, að stéttir á Íslandi kæmu vel út úr því.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV