Búnir að spila í öllum ríkjum nema Alaska

Mynd: Bruce Baker / Flickr

Búnir að spila í öllum ríkjum nema Alaska

23.11.2017 - 17:29

Höfundar

Það er tvennt ólíkt, að hita upp fyrir Rolling Stones og íslensku ábreiðusveitina Stóns. Þetta segir Jökull Júlíusson, söngvari hljómsveitarinnar Kaleo, sem hitaði upp fyrir bresku goðsagnirnar á þrennum tónleikum í haust. Meðlimir Kaleo eru á stífu tónleikaferðalagi og hafa nú spilað í öllum ríkjum Bandaríkjanna, utan Alaska. Sveitin vinnur að nýrri plötu sem von er á á næsta eða þarnæsta ári.

Það virðast engin takmörk vera fyrir vinsældum hljómsveitarinnar Kaleo um allan heim. Sveitin hefur verið á heillöngu tónleikaferðalagi, sem virðist engan endi ætla að taka.

„Það hefur gengið virkilega vel á tónleikaferðalaginu. Við erum auðvitað þannig séð búnir að vera á tónleikaferðalagi síðustu þrjú ár meira og minna,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo.

„Við erum stöðugt að fara á nýja staði og til nýrra landa og það er virkilega gaman að fá tækifæri til þess að gera það. Og koma fram í öllum þessum mismunandi löndum og spila á nýjum stöðum. Við búum í Bandaríkjunum og gerum út frá Nashville. Fyrstu árin vorum við aðallega að fókusera á Bandaríkin og við erum búnir að spila í öllum fylkjum nema einu, öllum nema Alaska. Við eigum það eftir. En núna erum við farnir að túra meira í Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku. Þannig að þetta er mjög stíft og mikið tónleikaferðalag,“ segir Jökull.

Hann segir að það komi meðlimum Kaleo alltaf jafnskemmtilega á óvart, hversu vel tónleikagestir um allan heim þekkja tónlist sveitarinnar.

„Já fólk syngur iðulega með lögunum. Það er mjög skemmtilegt en kannski misgóður hreimur hjá fólki eftir löndum,“ segir Jökull í léttum dúr.

Orðið „normal“ á ekki við

Kaleo hitaði upp fyrir goðsagnirnar í bresku hljómsveitinni The Rolling Stones á þrennum tónleikum í Þýskalandi og Austurríki í september. Jökull segir að það hafi verið ógleymanleg upplifun.

„Það var auðvitað rosalegur heiður og gaman að fá að deila sviðinu með Rolling Stones. Það má til gamans geta að við hituðum upp fyrir íslensku cover-hljómsveitina Stóns á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ fyrir fjórum eða fimm árum. Þannig að það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og gaman að hugsa til þess. En þetta var virkilega skemmtilegt tækifæri, tækifæri sem ég gat ekki sagt nei við,“ segir Jökull.

„Það var virkilega gaman að hitta þá og spjalla við meðal annars Keith [Richards]. Ég minnti þá á að Ísland er eitt af fáum löndum sem þeir hafa ekki spilað í ennþá. Þeir viðurkenndu það en mér heyrist því miður að þeir séu ekkert á leiðinni til Íslands til að halda tónleika á næstunni.“

Meðlimir Rolling Stones eru þekktir fyrir nokkuð skrautlegt líferni, og þá sérstaklega gítarleikarinn Keith Richards. En urðu meðlimir Kaleo varir við eitthvað slíkt?

„Orðið „normal“ á kannski ekki við þegar Rolling Stones eru nálægt. En ég er kannski ekkert að tjá mig um það persónulega. En þeir eru allavega vel hressir.“

Jökull segir að það hafi verið meðlimir Rolling Stones sem hafi óskað eftir því að Kaleo hitaði upp fyrir þá.

„Mick [Jagger] vildi fá okkur til þess að spila með þeim á þessum túr. Hann hefur áður falast eftir tónlistinni í sjónvarpsþætti og eitthvað slíkt þannig að mér skilst að hann hafi vonast eftir að við gætum verið með þeim á þessum túr. Þar sem við erum og vorum sjálfir á miðju tónleikaferðalagi sjálfir var frábært að ná að troða inn þessum tónleikum með þeim. Það hefði kannski verið skemmtilegt að taka meiri þátt í öllum túrnum en við erum í miðju kafi með okkar túr sjálfir. Við byrjuðum í Norður-Ameríku í ágúst og erum að túra fram í miðjan desember.“

Líkamlega og andlega erfitt

Þið spilið greinilega mjög stíft á tónleikum, stundum oft í viku, er þetta ekkert erfitt?

„Jú það er gríðarlega mikil keyrsla, og búið að vera síðustu ár. Og reynir oft mikið á. Við erum að spila yfir 300 daga á ári og að ferðast ofan í það. Það er mikill tímamismunur og maður er oft frekar búinn á því. Þannig að þetta getur verið erfitt, bæði andlega og líkamlega. Ég vona að næsta ár verði kannski aðeins rólegra og það verði kannski meiri tími til þess að fókusera á næstu plötugerð og fleira.“

Langt er um liðið síðan Kaleo spilaði síðast á Íslandi. Jökull segir ekki ljóst hvenær sveitin spilar næst í heimalandinu.

„Við erum oftast bókaðir svona eitt og hálft ár fram í tímann. En vonandi á næsta eða þarnæsta ári. Við verðum bara að sjá til. Maður nýtir tímann þegar maður getur að koma heim til Íslands, og þá reynir maður bara að vera sem mest með fjölskyldu og vinum.“

Smá hlé

Kaleo náði þeim stórmerka áfanga í haust að smáskífa lagsins Way Down We Go náði platínusölu í Bandaríkjunum. Það þýðir að ein milljón eintaka af laginu hafa selst. Björk og Of Monsters and Men eru einu íslensku tónlistarmennirnir sem hafa náð þessum árangri í Bandaríkjunum.

„Það er auðvitað ótrúlegur heiður og gaman að ná þeim áfanga að ná platínu í Bandaríkjunum. Og vissulega eitt af þeim markmiðum sem maður hafði. Þannig að það er ótrúlega gaman og mikil viðurkenning.“

Síðasta plata Kaleo, A/B, kom út í fyrrasumar. Jökull segir að það styttist í þá næstu - hún komi út á næsta eða þarnæsta ári.

„Ég er langt kominn með lagasmíðar fyrir næstu plötu og bíð spenntur eftir að komast inn í stúdíó til að reyna að fókusera meira á það, og setja alla einbeitinguna þangað þegar það er ekki eins stíft tónleikahald, sem verður þá vonandi á næsta ári,“ segir Jökull.

„En framundan er þessi túr sem við erum á núna, Kaleo Express Tour. Við höfum verið að spila síðan í ágúst og klárum í Grikklandi nokkrum dögum fyrir jól. Svo verða örugglega allir nokkuð fegnir að fá smá pásu til að ná andanum.“

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Rolling Stones „ekkert á leiðinni til Íslands“

Kaleo hita upp fyrir Rolling Stones

Fólk í fréttum

Kaleo troða upp í morgunsjónvarpi ABC

Tónlist

Kaleo aflýsir tónleikum vegna veikinda Jökuls