Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búist við hörðum umræðum á Framsóknarfundi

19.05.2017 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framsóknarflokkurinn heldur miðstjórnarfund í Reykjavík á morgun. Þetta er fyrsti stóri fundurinn innan flokksins síðan sögulegt flokksþing var haldið rétt fyrir alþingiskosningar í haust þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson felldi sitjandi formann Sigmund Davíð Gunnlaugsson í formannskosningu.

ÓIga innan flokksins

Mikil ólga var innan Framsóknarflokksins eftir að upplýst var um Panamaskjölin svonefndu og Wintrisfélag Sigmundar Davíðs sem endaði með uppgjöri á flokksþinginu. Í kjölfarið tapaði flokkurinn stórt í alþingiskosningum og missti 11 þingmenn. Nokkur Framsóknarfélög víðs vegar á landinu hafa lýst yfir óánægju með stöðu flokksins það sem af er kjörtímabili og óskað eftir að boðað verði til nýs flokksþings eins fljótt og auðið er þar sem stjórn flokksins verði kosin að nýju.

Staða flokksins rædd í þrjá tíma

Fundurinn á morgun er svokallaður vorfundur miðstjórnar. Um 200 manns eiga rétt til setu á fundinum. Á þessum fundi er ekki hægt að ákveða hvort boðað verði til flokksþings, en það er hins vegar hægt á haustfundi miðstjórnar. Búist er við að hart verði tekist á í almennum umræðum á fundinum, því sárin frá flokksþinginu hafa ekki gróið. Almennar umræður eru á dagskrá í þrjá klukkutíma eftir hádegishlé. Sá hluti fundarins er lokaður fjölmiðlum.

Lilja Dögg meira áberandi en Sigurður Ingi

Eva Heiða Önnudóttir doktor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir í Speglinum athyglisvert að Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður flokksins virðist vera mun meira í forsvari út á við fyrir flokkinn en formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson. „Og maður veltir því fyrir sér hvort það sé þannig að innan Framsóknarflokksins sé meiri stuðningur við Lilju Dögg Alfreðsdóttur heldur en formanninn, Sigurð Inga, og þá mögulega vegna þess klofnings sem virðist hafa átt sér stað á síðast ári eftir Wintrismálið svokallaða og átökin í forystunni. Þetta er það sem maður veltir fyrir sér þegar maður fylgist með stjórnmálum, en það hefur verið töluvert áberandi hvað hún hefur verið meira áberandi út á við fyrir flokkinn".

Panamamál óuppgert innan flokksins

Eva Heiða segir ljóst að Pananamálið sé óuppgert innan flokksins. Hann þurfi að gera málið upp sem einn flokkur, en það sé ekki víst að hann geti gert það ef klofningurinn er það mikill innan hans. Kjósendur vilja hins vegar mögulega vilja sjá hann gera slíkt.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV