Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Búið að slökkva eld í Hótel Ljósalandi

31.01.2016 - 09:22
Slökkviliðsbíll Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Búið er að slökkva eld sem varð laus í húsnæði Hótels Ljósalands í morgun. Eldurinn kviknaði í gistiaðstöðu sem er í átta tveggja manna herbergjum, fyrir aftan móttökubyggingu hótelsins. Gistiaðstaðan er mjög illa farin af eldi, reyk og sóti. Þriðjungur hússins er hruninn. Móttökubyggingin er ekki jafn illa skemmd. Slökkviliðsmenn frá Strandabyggð, Reykhólahreppi og Dalabyggð eru á staðnum. Engin slys urðu á fólki.

Gistiaðstaðan var nýlega tekin í notkun og var verið að vinna í að standsetja suðurhuta byggingarinnar sem herbergi. Taka átti aðstöðuna í notkun í vor. Þar var mikið af verkfærum og talsvert tjón. Um helmingur gistiaðstöðunnar er ónýtur.

Jóhannes Haukur Hauksson, slökkviliðsstjóri í Strandabyggð, segir að búið sé að ná tökum á eldnum. Ekki sé vitað hver upptökin voru. Vindátt hafi verið heppileg og veður hægt. Ef vindur hefði staðið öðruvísi, hefðu hin húsin verið í hættu. Þá hafi eldvarnarveggir gert gagn. 

Hótel Ljósaland er upp af sunnanverðum Gilsfirði. Þar er gistiaðstaða fyrir 16, í 8, tveggja manna herbergjum, sem sjást aftarlega á myndinni. Þegar hún var tekin var rekin verslun, Skarðsbúð, í byggingunni fremst á myndinni. Í stað hennar er þar nú veitingasala, sportbar og móttaka fyrir hótelið. Mynd: Skjáskot, Ja.is.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV