Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búið að opna Hellisheiði - hálka á Reykjanesbraut

19.02.2020 - 23:33
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Búið er að opna Hellisheiði og Þrengsli en á Reykjanesbraut er hálka og snjókoma. Búast má við að færð spillist á fjallvegum þegar þjónustu lýkur en versnandi veður er nú í öllum landshlutum.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að á Vestfjörðum hefur óvissustigi verið lýst yfir á Flateyrarvegi og Súðavíkurhlíð frá klukkan tíu í kvöld. Á Norðurlandi gildi það sama um Siglufjarðarveg. Öxnadalsheiði verður lokuð til morguns og óvissustigi hefur verið lýst yfir í Ólafsfjarðarmúla. 

Á Norðausturlandi ófært á Hólasandi og lokað er um Mývatnsöræfi, Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Á Austurlandi er ófært og stórhríð á Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði er lokuð.

Á Suðurlandi er hins vegar búið að opna veginn undir Eyjafjöllum og að Vík en lokað er frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni.

Veðurhorfurnar til miðnættis annað kvöld eru annars svona: „Snýst í norðanátt í nótt, 13-23 m/s undir morgun, hvassast um landið norðvestanvert. Snjókoma eða él norðantil, en bjart með köflum sunnanlands. Hiti kringum frostmark. Dregur úr vindi síðdegis og kólnar í veðri.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV