Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búið að leysa hvalinn úr netinu

16.08.2015 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Icewhale
Mynd með færslu
 Mynd: Guðlaugur Ottesen Karlsson - Icewhale
Hópi erlendra sérfræðinga tókst í morgun að skera grásleppunet af hnúfubaki sem hafði flækst í netinu. Köfunarmynstrið breyttist fljótt og hvalurinn sýnir sporðinn betur en áður en það tekur hann tíma að jafna sig segir verkefnisstjóri.

Hnúfubakurinn hefur verið fastur í netinu í á annan mánuð telja menn. Hann dró netið eftir sér og átti erfitt með hreyfingar auk þess að vera illa særður. Hópur erlendra sérfræðinga kom hingað til lands á vegum IFAW og hvalaskoðunarfélaga í Reykjavík. Á ellefta tímanum í morgun tókst þeim svo að skera mest af veiðarfærunum af hvalnum og losa um lykkjur og hnúta.

„Nú er það bara frjálst að synda um flóann. Við fylgdum því eftir í nokkurn tíma til að fylgjast með hegðuninni. Köfunarmynstrið hefur breyst, hann sýnir sporðinn betur og svo framvegis þannig að þetta lítur nokkuð vel út,“ segir María Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands. „En það tekur nokkurn tíma fyrir hann að jafna sig að fullu og losa sig við restina af veiðarfærunum.“

Upphaflega var búist við að aðgerðirnar gætu tekið nokkra daga. „Ég held að á heildina litið hafi þetta gengið vel. Hann var mikið flæktur og verkefnið var erfitt. Við erum hér á öðrum degi og búin að losa hann. Við erum öll mjög ánægð með þetta,“ sagði María Björk þegar hún var á leið aftur í land ásamt hópnum sem vann að björguninni.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV