Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Búið að eyðileggja fæðingarorlofskerfið

14.01.2015 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenskir feður taka mánuði styttra fæðingarorlof nú en fyrir hrun. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að búið sé að eyðileggja fæðingarorlofskerfið.

Íslenskir foreldrar hafa frá aldamótum getað varið níu mánuðum í fæðingarorlofi og skipt þeim á milli sín. Mæður fá þrjá mánuði, feður þrjá, og foreldrar deila þremur að vild. Þessi tilhögun er ekki aðeins hugsuð börnunum til hagsbóta, heldur líka til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og eyða launamun kynjanna - sem er enn landlægt vandamál. En reyndin er önnur, til dæmis á stórum hálaunavinnustöðum, eins og í Landsbankanum. 

„Karlar eru í fáum tilvikum að nýta sér alla þrjá mánuðina sem þeir hafa úr að spila í sínu fæðingarorlofi. Nærtækasta skýringin er sú að þetta sé fjárhagsleg ákvörðun. Að þeir sjái ekki fram á að hafa efni á því að taka sér fullt fæðingarorlof ef það þýðir tekjumissi,“ segir Baldur Jónsson, mannauðsstjóri í Landsbanka Íslands.

Kerfið eyðilagt

Nýleg félagsfræðirannsókn staðfestir þetta. Feður virðast taka að meðaltali heilum mánuði minna í fæðingarorlof nú en fyrir hrun. Ástæðan er einföld, að mati Samtaka atvinnurekenda en Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri segir: „Það er í rauninni mikil synd - við erum búin að eyðileggja það kerfi sem höfðum byggt hér upp og vorum mjög stolt af.“ 

Árið 2004 var sett þak á þær greiðslur sem foreldrar gátu fengið úr fæðingarorlofssjóði. Þakið virðist hafa haldið sér nokkurn veginn, ef litið er á það á verðlagi hvers árs frá árinu 2005. Það hefur farið úr 480.000 krónum á mánuði niður í 370.000 krónur. Þegar tölurnar eru uppfærðar miðað við launavísitölu - aftur í tímann - kemur hins vegar í ljós að fjárhæðin hefur lækkað úr 918 þúsund krónum á mánuði í 370. Það munar um minna. 

Kynbundin ákvörðun

„Þetta þýðir í raun að þetta er aftur orðin kynbundin ákvörðun. Það er líklegra að konur taki fæðingarorlof en karlar. Þar af leiðandi dregur þetta úr jafnrétti á vinnumarkaði þvert á það sem lagt var upp með. Þessari þróun verðum við að snúa við,“ segir Þorsteinn. 

Fyrri ríkisstjórn hafi átt þátt í þessari þróun með því að lækka þakið á hámarksfjárhæðinni verulega. Núverandi ríkisstjórn hafi síðan skorið markaða tekjustofna sjóðsins niður um helming, svo hann sé nú rekinn með tapi. „Við lítum á þetta sem tiltölulega einfalt verkefni sem þarf ekki að liggja lengi yfir. Það þarf að endurreisa þau tekjumörk sem sjóðurinn hafði, ríkissjóður þarf að skila þeim fjármunum inn í sjóðinn. Síðan þarf þá að hækka tekjuviðmið á nýjan leik þannig að þau endurspegli þann raunveruleika sem ríkir í efnahagslífinu í dag.“