Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Buðu frítt í sund og á söfn

23.05.2011 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld og borgaryfirvöld hafa áhyggjur af því að eldgosið í Grímsvötnum kunni að hafa slæm áhrif á ferðaþjónustu. Tvö þúsund erlendir ferðamenn komust ekki leiðar sinnar í gær og í morgun og Reykjavíkurborg brá á það ráð að bjóða fólkinu frítt í sundlaugar og á söfn borgarinnar.

Með þessum hætti vildu borgaryfirvöld stytta fólki stundir meðan það beið þess að komast á næsta áfangastað eða heim til sín. Ráðherrar lýstu áhyggjum af stöðu ferðaþjónustunnar á stuttum blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, sagði minna um afbókanir nú en þegar Eyjafjallajökull gaus í fyrra. Hins vegar væri full ástæða til varkárni, þess yrði gætt að upplýsa fólk og ferðaþjónustufyrirtæki um stöðu mála og reynt að draga úr slæmum áhrifum gossins.