Bubbi sýnir málverk á fullveldishátíð Tolla

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

Bubbi sýnir málverk á fullveldishátíð Tolla

29.11.2019 - 15:24

Höfundar

„Ég vil auðvitað eigna mér þessa fæðingu,“ segir Tolli Morthens um það að bróðir hans, Bubbi, hefur nú tekið upp pensilinn og byrjað að mála olíumálverk. Á laugardaginn heldur Tolli fullveldishátíð og opnar vinnustofu sína þar sem málverk Bubba verða meðal annars til sýnis.

Bubbi leitaði fyrst til Tolla þegar hann ætlaði að mála umslag á nýjustu plötuna sína. „Ég vissi að Bubbi byggi yfir karakter í teikningu sem er frekar geggjaður. Maður getur sagt hann kunni minna en ekki neitt, varla að teikna Óla prik,“ segir Tolli við Morgunútvarpið á Rás 2. „En hann á karakter í teikningunni sem er einstakur, og minnir mig á listamanninn Otto Diggs sem málaði úrkynjunina í Weimar-lýðveldinu. Svo er hann með litapallettu eins og expressjónistinn Emil Nolde.“ Í verkunum sem Bubbi sýnir á laugadaginn vitnar hann í texta laga sinna, Fjólublátt flauel, Svartur afgan, Hiroshima og fleiri, auk þess sem hann leikur tónlist sem undirspil fyrir myndirnar.

En er Tolli ekkert svekktur yfir því að Bubbi sé að ryðjast inn á hans svið? „Það má segja að geta okkar skarist. Ég hefði alveg getað farið inn á hans svið,“ segir Tolli sem býst þó ekki við að byrja í tónlist úr þessu. „En við komum upp úr sama sandkassa,“ bætir hann við og segir að það hafi verið ýtt undir sköpunargáfuna á heimilinu. Bubbi hefur líka látið til sín taka í ljóðagerð og eftir hann liggja núna þrjá bækur og les hann upp á laugardaginn ásamt Einari Má Guðmundssyni og Ásdísi Þulu Þorláksdóttur, dóttur Tolla. Hátíðin fer fram í vinnustofu Tolla að Héðinsgötu 2 í Reykjavík. „Hún tekur alveg 100-200 manns. Og ég verð að nefna einn listamann í viðbót sem er Jói í Múlakaffi, hann ætlar að sjá um veitingarnar fyrir okkur.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Bubbi: „Þá endarðu bara einn úti í horni“

Menningarefni

Bubbi Morthens kemur Auði til varnar

Leiklist

Leikstjóraskipti í söngleiknum um Bubba

Tónlist

„Það eina sem vantar er andlit“