Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bubbi glímir við kvíða fyrir tónleika

Mynd: RÚV / RÚV

Bubbi glímir við kvíða fyrir tónleika

18.04.2018 - 14:05

Höfundar

„Það voru tímabil þar sem ég var bara veikur áður en ég fór á svið,“ segir Bubbi Morthens tónlistarmaður, sem hefur lengi glímt við kvíða í aðdraganda tónleika. Hann segist áður hafa tekið inn efni til að deyfa sig en nálgist nú tónleika á annan hátt.

Bubbi heldur tónleika í Eldborg í Hörpu í kvöld þar sem hann flytur lög af plötunum Kona og Sögur af landi í fyrsta sinn í heild sinni með hljómsveit. Spurður hvort hann verði enn stressaður fyrir tónleika svarar hann játandi. 

„Ég er með sálfræðing og við vorum að fara yfir kvíðann minn fyrir tónleikum bara núna um daginn og hún var að sýna mér út af hverju ég er kvíðinn áður en að tónleikar hæfust. Það tengist æsku minni.“

Hann segir að fólk í nánasta umhverfi hans segi að hann breytist tíu dögum fyrir tónleika. „Ég verð erfiður, ég fer að væla, tala um að ég sé slappur og ekki í góðu formi. Ég hélt alltaf að fólk væri að bulla en staðreyndin er að þetta er satt. Þess vegna fór ég að ræða þetta við sálfræðinginn minn. Þannig að við fórum yfir þetta og skoðuðum þetta. Þannig að ég held að ég sé að nálgast tónleika öðruvísi en venjulega. Áður fyrr setti ég bara í mig efni, fór í gegnum alls konar hluti með því að deyfa sjálfan mig. Nú fer ég inn á svið fullur eftirvæntingar.“

Hann segist þó líka finna fyrir jákvæðu stressi.

„Ég fer algjörlega á tánum inn á svið. Síðustu þrjá tímana áður en að tónleikarnir byrja er ég ekki staddur í raunheimum, ég er á einhverjum skrítnum stað. Ég held að ef ég væri ekki stressaður, ef það væri ekki eftirvænting og mig langaði ekki að gera þetta vel og teygja mig eins langt og ég get til að stækka mig og þá sem eru að hlusta; ef ég hefði ekki þessa tilfinningu þá væri ég á vondum stað.“

Rætt verður við Bubba Morthens í Menningunni í kvöld.