Bubbi brúar kynslóðabilin

Mynd: Menningin / RÚV

Bubbi brúar kynslóðabilin

19.04.2018 - 08:23

Höfundar

Íslenskan er helsta ástæðan fyrir því að tónlist Bubba Morthens hefur staðist tímans tönn og átt greiða leið milli kynslóða, að mati tónlistarmannsins. „Ég held að tungumálið hafi þennan galdur að ná til fólks. Hefði ég verið að syngja á ensku býst ég ekki við þessum áhrifum.“

Bubbi Morthens hélt tónleika í Hörpu þar sem hann lék lög plöturnar Kona og Sögur af landi í heild sinni í fyrsta sinn með hljómsveit. Næstu árin ætlar hann að halda tónleika á síðasta vetrardag og flytja tvær plötur með hljómsveit. Á næsta ári er röðin komin að Frelsi til sölu og Dögun.

„Bravó Bubbi, helvíti var þetta vel gert“

Bubbi segir ánægjulegt að rifja plöturnar upp. „Þetta er áskorun en þetta er líka rosalega gaman að nálgast efnið aftur og ekki fikta í því heldur bara spila það eins og það er á plötunum. Að koma að þessum plötum eftir öll þessi ár, byrja að spila ... ég segi bara Bravó Bubbi, helvíti var þetta vel gert.“

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV

Kona og Sögur af landi eru af mörgum taldar bestu plötur Bubba. Hann segist sjálfur ekki líta á þær sem hápunkt. „Nei, en ég skil það. Alla kynslóðir tengja sig við einhverja hluti. Bókmenntir, ljóðlist, eða tónlist. Á þessum tíma er fólkið sem segir þetta ungt, þetta var eitthvað nýtt og hefur áhrif á þau. Ég get alveg tengt Sögur af landi sem einhvers konar risa hjá mínum plötum en ég er ekki dómbær. Það sem ég geri er að ég veð áfram og bý til fleiri plötur. Ég man að margir voru gríðarlega hissa þegar Kona kom út, því nokkrum mánuðum áður gerði ég Das Kapital. Þetta kom mönnum á óvart. Ég vissi með Sögur af landi að ég var með, svo ég sletti, full metal jacket. Það er bara þannig.“ 

Tók mörg ár að taka Konu í sátt

Bubba segir alla hafa skoðun á honum og plötunum hans og það sé gleðilegt. „Ég fagna því alltaf meir og meir þegar ég hitti fólk sem segist vera hrifið af þessu lagi eða þessari plötu. Ég hugsa bara vá, en æðislegt. Áður fyrr pirraði þetta mig. Ég man þegar fólk var að dásama Konuplötuna og ég var bara á siglingu að gera eitthvað allt annað og hugsaði: Hvað er að þér? Láttu mig í friði með Konu. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég gat tekið utan um Konuplötuna og hugsað: geggjuð plata.“

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV

Íslenskan brýtur niður alla múra

Ferill Bubba spannar nú hartnær fjóra áratugi og nokkrar kynslóðir. Nú eru krakkar á framhaldsskólaaldri farnir að uppgötva Bubba. Hvað veldur því að tónlistin virðist ná í gegn aftur og aftur?

„Tungumálið, íslenska,“ svarar hann hiklaust. „Það er bara málið. Ég var að spila í Hamrahlíð um daginn og ég var gapandi. Það var svo troðið, allar rifur fullar. Ég spilaði nýtt efni, það mátti heyra saumnál detta. Svo spilaði ég gamla efnið og salurinn söng og söng. Og ég hugsaði: Hvað er að gerast? Hér eru krakkar frá sextán upp í tvítugt, þetta var ótrúlegt. Ég held að það sé vegna þess að ég er að syngja á íslensku. Ég held að tungumálið hafi þennan galdur að ná til fólks. Hefði ég verið að syngja á ensku býst ég ekki við þessum áhrifum. Ég held að einhvern veginn að maður nái tengslum hjarta við hjarta í gegnum tungumálið. Og íslenskan er enn þá það mikilvæg að hún brýtur niður alla múra í þessu samhengi.“ 

Rætt var við Bubba í Menningunni. Horfa má á allt viðtalið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fyllerí og ofbeldi en líka fegurð og ást

Tónlist

Bubbi skilar skömminni

Menningarefni

Ádeilunni skipt út fyrir einlæga viðkvæmni

Bókmenntir

„Ég varð vitni að brútal nauðgun“