Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Búast má við að eitthvað fari að gerast

27.01.2020 - 17:10
Mynd: RÚV / RÚV
Jarðfræðingur segir að miðað við gossöguna á Reykjanesskaga megi alveg búast við gosi þar. Verði gos í Svartsengi megi líka búast við að gjósi á Reykjanesi. Hann segir hins vegar að það sé kannski líklegra að kvikan leiti eftir sprungukerfinu og landris hætti.

Mikil eldvirkni

Það fyrsta sem blasir við þeim sem koma með flugi til Íslands er fremur hrjóstrugt landslag á Reykjanesskaganum. Hann er nánast allur þakinn hrauni sem er yfir þúsund ferkílómetrar af skaganum eða um tveir þriðju hlutar hans. Þarna hefur verið mikil eldvirkni á nútíma sem í jarðsögulegu samhengi nær frá því að síðasta kuldaskeiði lauk fyrir 11.500 árum. Það á því ekki að koma á óvart að það geti byrjað að gjósa á Reykjanesskaga.

Þrjú gosskeið

Magnús Á Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá Ísor, segir að gossagan sé nokkuð vel þekkt síðustu rúmlega 3000 árin. Á þeim tíma hafi orðið þrjú gosskeið með tæplega 1000 ára millibili, fyrir 3000 árum, 2000 árum og svo í kringum landnámið. Fjöldi gossprungna á skaganum ber vitni um hversu virkur hann er þótt ekki hafi gosið þar síðan á 13. öld. Gossprungukerfin liggja í suðvesturátt yfir skagann, Reykjaneskerfið, Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll. Síðasta gosskeið hóst um 800 í Brennisteinsfjöllum og reyndar líka í Krýsuvík. Næst gaus á 10. öld, aðallega í Brennisteinsfjöllum. 

„Þá runnu Selvogshraun og hraunin í Heiðmörk til dæmis. Síðan færðist virknin vestar að Krýsuvíkurkerfinu. Þá rann Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Eftir það hófust Reykjaneseldar árið 1210. Þá gaus fyrst í sjó við Reykjanes. Samtíma því gaus á landi á stuttri gossprungu. Þá myndaðist Yngra-Stampahraun. Eftir það gaus sennilega þrisvar í sjó nokkru utar. Eftir 1226 fór að gjósa á Svartsengisreininni eða í Svartsengiskerfinu. Þá runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Það er yngsta hraunið, gæti hafa runnið á milli 1230 og -40. Og eftir það lýkur þessum eldum," segir Magnús.

Mynd með færslu
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga

Má alveg búast við að eitthvað fari að gerast

Einkenni gosskeiðanna á Reykjanesskaga virðast vera að þau standa yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta tímabilið stóð yfir í þrjár aldir. 
Þetta eru sprungugos eða gos sem eru gjarnan kölluð eldar. Þau standa yfirleitt í langan tíma. Magnús segir að líkja megi þessu við Kröfluelda sem stóðu yfir í 10 ár. 

Rannsóknir benda til þess að það líði 800 til 1000 ár á milli gosskeiðanna á Reykjanesskaga. Síðasta gosi lauk 1240. Það má því segja að það sé kominn tími á gos.

„Já, miðað við söguna eins og við þekkjum hana þá eru liðin um það bil átta níu hundruð ár síðan gaus síðast austan til á skaganum þannig að þá má alveg búast að eitthvað fari að gerast hvað úr hverju," segir Magnús.    
 

Sprungugosum fylgir ekki öskufall og þau geta verið tilkomumikil. En það getur vissulega verið hætta á ferðum þegar gýs í nálægð við mannabyggðir.

„Já, það er vissulega hætta ef það byrjar að gjósa á sprungu. Stærstu hraunin sem runnu á 13. öld eru um 20 ferkílómetrar sem er allstórt svæði. Þessi sprungugos virðast ekki verða mikið stærri en 20 til 25 ferkílómetrar."

Janvel líklegra að kvikan velji sér leið neðanjarðar

Það hefur verið lýst yfir óvissuástandi vegna kvikuhreyfinga sem valda því að land rís við fjallið Þorbjörn, milli Grindavíkur og Bláa lónsins þar sem Svartengisvirkjun er líka. Magnús segir að staðurinn sé ekki óvenjulegur. Hann sé nálægt Eldvarpareininni. Hins vegar hefði mátt búast við að virknin byrjaði austar. En er hægt að fullyrða ef gos hefst að það sé byrjunin á nýju gostímabili?

„Nei, við getum ekkert fullyrt um það enn sem komið er. Það verður bara að fylgjast með og sjá hvað gerist. Það má benda á að Reykjaneskerfið og Svartsengiskerfið hafa alltaf fylgst að. Þannig að ef fer að gjósa í Svartsengi má búast við að það gjósi líka á Reykjanesi," segir Magnús.

Kvikan þrýstir á yfirborð jarðar og landið er að rísa. En það er ekkert hægt að segja til hvort hún nær að ryðja sér upp á yfirborðið eða velur sér að fara einhverjar aðrar leiðir.

„ Já það eru alveg jafn miklar líkur á því og kannski líklegra að það geri það. Leiti eftir sprungum norður og jafnvel suður eftir og landrisið stöðvist.“