Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Búast ekki við að Brexit hafi áhrif á reikisamninga

12.02.2020 - 07:13
Mynd með færslu
 Mynd: Kaboompics .com - Pexels
Ekkert af fjarskiptafyrirtækjunum hér á landi gerir ráð fyrir því að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu eigi eftir að hafa áhrif á símreikninga Íslendinga á ferðalögum til Brelandseyja. Það kunni þó að geta breyst.

Reikigjöld voru afnumin í Evrópu í júní árið 2017 og síðan þá hafa farsímanotendur getað notað símann sinn hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins án þess að borga hærra gjald fyrir tal, smáskilaboð og gagnanotkun. Áður en gjöldin voru afnumin gat það reynst fólki dýrt að nota farsímann sinn í Evrópu og dæmi um að tugþúsunda króna reikningur biði við komuna heim. 

Bretland gekk út úr Evrópusambandinu 31. janúar en aðlögunartímabil stendur yfir út árið, sem þýðir að nær allar reglur og reglugerðir Evrópusambandsins, þar á meðal um reiki, halda áfram að vera í gildi. 

Hvað gerist næst veltur á því hverskonar samkomulag næst um viðskiptasamband Bretlands og Evrópusambandið, segir í frétt BBC um málið.

Ekki er þó víst að Brexit hafi áhrif til hækkunar þegar í stað hjá íslensku fjarskiptafyrirtækjunum. 

Óbreytt staða væri best fyrir alla 

„Engar sérstakar ráðstafanir eru fyrirhugaðar hjá Vodafone vegna útgöngu Bretlands úr ESB að svo stöddu,“ segir Lilja Birgisdóttir, samskiptastjóri Vodafone, í svari við fyrirspurn fréttastofu. „Komi til að ytri aðstæður breytast gæti fyrirtækið þurft að endurmeta núverandi afstöðu.“

Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans segir að útganga Breta úr Evrópusambandinu hafi engin áhrif á reikisamninga Símans. Verð fyrir reiki í Bretlandi gæti hækkað vegna útgöngu Breta úr ESB. „Engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíkt hjá Símanum né hjá þeim farsímafyrirtækjum í Bretlandi sem Síminn hefur reikisamninga við. Að halda Bretlandi innan Roam like home óháð útgöngu þeirra úr ESB væri best fyrir alla,“ segir Guðmundur.

Aðspurður segir Guðmundur að almennir notendur eigi ekki eftir að finna fyrir breytingum. „Brexit hefur engin áhrif á farsímakerfin nema af viðskiptalegum toga.“

Egill Moran Friðriksson, þjónustustjóri hjá Hringdu, segir að þar standi vonir til þess að Brexit hafi ekki áhrif. „Samkvæmt okkar bestu vitund hefur staða Bretlands innan samnings um reiki í Evrópu ekki breyst eftir útgöngu þann 31. janúar síðastliðinn og þangað til annað kemur í ljós verður óbreytt fyrirkomulag hjá okkur,“ segir hann.

„Eins og staðan er nú er einfaldlega ekki vitað hvort samkomulag næst um reiki í Evrópu fyrir lok árs. Vonandi helst þetta bara óbreytt en ef samningar nást ekki þá er auðvitað líka sá möguleiki að símafyrirtæki innan EES semji um að viðhalda sömu kjörum,“ segir Egill. 

Of snemmt að segja til um áhrif

„Við eigum ekki von á breytingum þar sem reikisamningar sem þegar hafa verið gerðir eru milli farsímafyrirtækja,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova. „Brexit ferlið mun taka um ár og því snemmt að draga ályktun um að útganga þurfi að hafa áhrif á verðlagningu þegar viðskiptavinir ferðast til Bretlands.“

„Nova mun ekki hafa frumkvæði að núverandi samningar fallir úr gildi enda viljum við alltaf tryggja bestu kjörin fyrir okkar viðskiptavini, að þeir geta notið farsímann áhyggjulausir á ferðalögum erlendis,“ segir Margrét.