Búa sig undir síldardauða

25.11.2013 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Sigurðsson, sérfræðingur og sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun segir verða reynt í dag eða á morgun að beita neðansjávarhljóðum til að fæla burt síldina.

Ekki hafi verið hægt að reyna þessa aðferð fyrr, þar sem töluvert magn af síld þarf að vera á svæðinu til að hún virki, en þar til í lok síðustu viku var síldin ekki nægilega mikil í firðinum.

„Í dag tökum við stöðuna með veðrið hvort við getum farið í þetta verkefni sem við höfum verið að tala um núna síðustu daga, það er að segja að reyna að fæla síldina burt með upptökum af háhyrningshljóðum. Við höfum fengið frá Háskólasetrinu á Húsavík raunverulegar upptökur af háhyrningi sem er að éta síld. Við erum búin að taka þær upptökur og spilum þær þá út í hafið. Ef að vel gengur gæti það styggt við síldinni þá væri hægt að nota það sem aðferð til þess að smala henni út.“

Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði, segir að síldveiðarnar í Kolgrafafirði gangi ágætlega, bátarnir veiði þó aðeins lítið brot af síldinni. Fólk sé að búa sig undir viðbrögð við síldardauða, 52.000 tonn af síld drápust í desember og febrúar.

Sigurborg sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að ekki hefðu farið fram  neinar mælingar á hve mikið væri af síld í firðinum, en eftir því sem sjómenn segi, þá gætu það verið um 100.000-200.000 tonn. Þannig að fyrir utan það að tryggja ákveðin öryggismál varðandi þessar veiðar, væru menn uppteknari af þeim möguleika að þarna gæti drepist síld. 

Eitt af því sem hefur verið skoðað er að dæla súrefni í sjóinn. Hafrannsóknarstofnun ætlar líklega að gera tilraunir með hvalahljóð í dag til þess að fæla síldina út. Ef síldin drepst á að skoða möguleika á að farga í sjó. En hvernig hafa heimamenn hugsað þessi mál til framtíðar? 

Sigurborg sagði að ræddar hefðu verið tvær leiðir, að opna hinum megin, að austanverðu, þannig að það yrðu í rauninni tvær brýr og mögulega hringflæði. Það væri þó engin trygging fyrir því að það kæmi í veg fyrir að síld gengi inn í fjörðinn og það ekki víst að það dygði. Það yrði líka gríðarlega dýr framkvæmd og einnig yrði gríðarlega dýrt að loka. Það yrði fræðilega hægt, það yrði stór ákvörðun, mikil breyting á lífríki, mikill kostnaður og tæknilega stór framkvæmd, en hún sæi enga aðra leið. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi