Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Búa sig undir síldardauða

26.11.2013 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Grundfirðingar og nærsveitarmenn búa sig undir síldardauða í Kolgrafafirði segir Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði. Fulltrúar stjórnvalda funda með heimamönnum um aðgerðir í hádeginu á morgun.

Óljóst er enn hve mikið er af síld í firðinum. Mjög slæmt veður er á norðanverðu Snæfellsnesi, suðvestan rok og rigning og enginn bátur við veiðar í firðinum. Sigurborg segir að fulltrúar stjórnvalda, samráðsnefndin svokallaða, fundi með heimamönnum fyrir vestan á morgun um næstu skref.

„Við erum að einbeita okkur að því að búa okkur undir viðbrögð við síldardauða, eins og reyndar stofnanir og stjórnvöld eru að gera líka. Við erum upptekin af því með þeim mönnum hér sem hafa góða verkkunnáttu hvernig hægt er að bregðast við síldardauða, bjarga verðmætum úr fjöru, koma dauðri síld lengra út í haf eftir að ekki er hægt að nýta hana lengur,“ segir Sigurborg. „Þetta er það sem við erum uppteknust af núna. Möguleiki á löndunaraðstöðu innan brúar er opinn. Við sjáum til hvernig veiðar þróast og forsendur fyrir þeim líka. En við erum uppteknust af því að vera klár, þegar og ef, en auðvitað vonum við það besta.“