Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búa sig undir innflutningsbann Rússa

31.07.2015 - 11:26
Russian President Vladimir Putin speaks as he attends a Navy parade in Baltiisk, western Russia, Sunday, July  26, 2015 during celebrations for Russian Navy Day. (Mikhail Klimentyev/RIA-Novosti, Kremlin Pool Photo via AP)
 Mynd: AP - POOL RIA NOVOSTI KREMLIN
Íslensk fiskútflutningsfyrirtæki eru í viðbragðsstöðu vegna frétta af því að Rússar kunni að banna innflutning á íslenskum fiski. Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood segir fyrirtækið leita nýrra markaða enda Rússar þriðji stærsti kaupandi íslenskra fiskafurða.

Ummæli Peskov stórfréttir í Rússlandi
Teitur staðfestir að viðskiptamenn Iceland Seafood í Rússlandi hafi verið í sambandi vegna málsins, enda hafi það verið með stærstu fréttum í rússneskum fjölmiðlum á miðvikudag. „Í kjölfar þess að ESB birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni 27. júlí, minnir mig, þar sem Ísland er tilgreint sem hluti af þeim þjóðum Evrópusambandsins og annarra sem hafa beitt Rússland viðskiptaþvingunum, þá hafa Rússar brugðist við. Samkvæmt fréttafulltrúa Pútíns í gær eru þeir að skoða hvernig þeir eiga að bregðast við - og þá væntanlega með gagnaðgerðum sem myndu ná til Íslands,“ segir Teitur. 
Dmitri Peskov fjölmiðlafulltrúi Pútíns lýsti því yfir að til greina kæmi að beita löndin á listanum viðskiptaþvingunum. „Það sem að gerist núna er að Rússarnir ráða ráðum sínum og ég hygg að ef Íslendingar bregðast ekki við með neinum hætti verði litið á það sem fullan stuðning við þessar refsiaðgerðir og þá verði sett á innflutningsbann.“ 

Óvissa um sölu makríls
Teitur segir ljóst að mikið viðskiptabann fæli í sér mikið tjón fyrir Ísland, auk þess sem innflutningsbann myndi loka öðrum af tveimur stærstu makrílmörkuðum Íslands. Teitur segir Iceland Seafood hafa selt langmest af makríl til Rússlands og Nígeríu - og þessir tveir markaðir taki til sín 80% - 90% af makrílsölu frá Íslandi. Enn meiri óvissa sé um makrílsöluna, því Nígeríumenn hafi ekki enn gefið út innflutningskvóta fyrir seinni hluta ársins. Sá kvóti eigi að gilda frá 1. júlí til 31. desember. Af þessu má ráða að tveir stærstu markaðir Íslendinga fyrir makríl séu í óvissuástandi.

Þriðji stærsti kaupandi íslenskra fiskafurða
Það er þó ekki bara makríll sem fluttur er inn til Rússlands. „Þetta nær til fleiri tegunda. Við höfum selt þeim gríðarlega mikið af síld og stærsti hlutinn af frystri loðnu hefur farið til Rússlands. Svo hefur verið selt talsvert mikið af karfa til Rússlands - ég held að Rússland sé þriðja stærsta útflutningsland okkar Íslendinga í sjávarafurðum.“

Leita nýrra markaða
Teitur telur líklegt að ef Íslendingar bregðast ekki sérstaklega við, láti Rússar af því verða að banna innflutning íslenskra fiskafurða. Aðspurður um hvernig Iceland Seafood bregðist við slíkum blikum á lofti segir Teitur fyrirtækið meðal annars leita nýrra markaða, og að sú vinna sé þegar hafin. „Sú vinna er hafin - og sú vinna er í raun alltaf í gangi. Bæði við og aðrir útflytjendur á Íslandi erum alltaf að leita að nýjum mörkuðum fyrir sjávarafurðir,“ segir Teitur.

hallaoddny's picture
Halla Oddný Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður