Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Búa sig undir átök á vinnumarkaði

23.10.2016 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþýðusambandið ætlar að efla verkfallssjóð sinn til muna. Búist er við átökum á vinnumarkaði í febrúar. 

 

42. þing Alþýðusambands Íslands verður sett á miðvikudaginn og ef tillögur fyrir þingið eru skoðaðar má sjá að gert er ráð fyrir að í átök stefni á vinnumarkaði.

 Meðal þess sem liggur fyrir þinginu er tillaga sem miðstjórn ASÍ hefur samþykkt um aukin framlög í vinnudeilusjóð. Lagt er til að í hann renni liðlega 143 milljónir króna af óráðstöfuðu eigin fé sambandsins. Fyrir í sjóðnum eru 212 milljónir þannig að verði tillagan samþykkt stækkar sjóðurinn um  67,5%.

Í greinargerð með tillögunni segir að áður hafi runnið ákveðið hlutfall af tekjum sambandsins í sjóðinn og hann ávaxtaður til viðbótar við hækkun verðlags. Árið 2008 hafi verið ákveðið að fella út öll ákvæði um sjóðinn sem þýddi að sérstaka ákvörðun þyrfti að taka á þingi ASÍ til að hækka hann. Það hefur ekki verið gert fram að þessu og stendur hann í sömu fjárhæð og hann gerði árið 2008. Ef hann hefði verið ávaxtaður um 3% að raungildi frá þeim tíma, væru í honum 143 milljónum krónum meira en eru í dag.

Í greinargerðinni segir að í ljósi þeirrar miklu óvissu sem sé á stöðu kjaramála á næstu misserum sé lagt til að bætt verði í sjóðinn. Aðildarfélög ASÍ eru með verkfallssjóði en vinnudeilusjóði ASÍ er ætlað að vera þeim bakhjarl. Samkvæmt heimildum fréttastofu gera menn ráð fyrir því innan ASÍ að til tíðinda geti dregið í febrúar þegar endurskoðunarákvæði kjarasamninga koma til framkvæmda og allt eins gert ráð fyrir því að samningar verði þá lausir.

 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV