Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

BSRB krefst leiðréttingar

23.12.2011 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður BSRB segir það sérkennilega forgangsröðun að leiðrétta laun alþingismanna og annarra æðstu embættismanna, áður en launalækkanir annarra opinberra starfsmanna verði dregnar til baka. Bandalagið krefst þess að kjör félagsmanna bandalagsins verði leiðrétt hið fyrsta.

Kjararáð ákvað í vikunni að draga til baka launalækkanir ráðherra, þingmanna og embættismanna sem samþykktar voru í kjölfar efnahagshrunsins. Ákvörðun kjararáðs er afturvirk til fyrsta október á þessu ári. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir kjararáð með þessu hafa riðið á vaðið varðandi leiðréttingu launa ríkisstarfsmanna. Hún segir stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins mörg eiga eftir að leiðrétta launalækkanir sem hafi átt að vera tímabundnar eftir hrun.

„þess vegna gerum við ráð fyrir þvi að þetta sé fordæmisgefandi og þess vegna gerum við ráð fyrir því að þetta sé fordæmisgefandi og það verði endurskoðað jafnhliða skerðingu hjá öðrum ríkisstarfsmönnum,“ sagði Elín Björg í viðtali við fréttastofu RÚV.

BSRB hyggst fara fram á viðræður við fjármálaráðherra um hvernig staðið verði að þeim leiðréttingum.
Þá setur bandalagið spurningu við þá forgangsröðun að laun þeirra sem heyri undir kjararáð séu hækkuð áður en launalækkanir annarra opinberra starfsmanna hafi verið dregnar til baka.

„Það segir sig svosem alveg sjálft að forgangsröðunin er svolítið sérkennileg, en við hljótum auðvitað að líta þannig á að það sé  kominn tími á að leiðrétta kjör opinberra starfsmanna sem hafa orðið fyrir skerðingu með svipuðum hætti og það fólk sem þarna var verið að leiðrétta,“ sagði Elín Björg að lokum.