Brýtur sjónarhorn feðraveldisins á bak aftur

Mynd: Portrait de la jeune fille en fe / Portrait de la jeune fille en fe

Brýtur sjónarhorn feðraveldisins á bak aftur

01.02.2020 - 16:00

Höfundar

Portrait de la jeune fille en feu (Portrett af brennandi konu) sem nú er sýnd á franskri kvikmyndahátíð í Bíó Paradís er feminísk kvikmyndagerð upp á sitt besta þar sem þögguð menning og saga kvenna fyrri alda er í forgrunni.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Frönsk kvikmyndahátíð stendur yfir um þessar mundir í Bíó Paradís og er Portrait de la jeune fille en feu ein af þeim kvikmyndum sem eru í boði og hefur verið beðið með eftirvæntingu. Kvikmyndin hefur farið sigurför um heiminn og keppti meðal annars um gullpálmann á Cannes-hátíðinni og vann hinsegin pálmann - eða Queer Palm, sem eru veittar þeim myndum sem fjalla um hinsegin fólk en kvikmyndin sem gerist á afskekktum stað í Bretaníu héraði í Frakklandi seint á 18. öld fjallar um forboðna ást tveggja kvenna, Héloïse sem er ógift ung kona af aðalsættum og Marianne, listmálara sem hefur verið ráðin af móður Héloïse til þess að mála af henni portrett án þess að hún viti af því. Móðirin ætlar sér að gifta dóttur sína ítölskum aðalsmanni en til þess að samningurinn gangi upp verður að senda á undan henni portrett. Héloïse er nýkomin úr klaustri, er að syrgja systur sína og hefur ekki áhuga á að gifta sig, hennar eina vörn er að forða sér undan því að sitja fyrir. Marianne er því kynnt fyrir Héloïse sem fylgdarkona og þarf hún að vinna sér inn traust hennar sem og að virða hana fyrir sér og mála portrett af í laumi.

Mynd með færslu
 Mynd: Portrait de la jeune fille en fe
Margir rammar í myndinni minna helst á málverk.

Sagan er sögð í afturliti því kvikmyndin hefst á því að við sjáum Marianne sitja fyrir sem módel fyrir hóp nemenda í listmálun sem hún er að kenna. Einn nemandinn rekur augun í drungalegt málverk af konu sem stendur kyrr þó svo að pilsið hennar standi í ljósum logum sem verður til þess að hugur Marianne reikar aftur til baka. Þetta upphafsatriði setur tóninn fyrir kvikmynd sem fjallar um verknaðinn að horfa og þá sérstaklega hvernig horft er á konu og kannar sjónarhorn konunnar sem horft er á. Listasagan allt fram á 20. öldina segir fyrst og fremst frá körlum og þeirra eftirlætis viðfangsefni, nöktum kvenmanslíkömum. Portrait de la jeune fille en feu er mjög meðvitað og þaulhugsað viðnám gegn hinu karllæga sjónmáli eða sjónarhorni (e. male gaze) sem gegnumsýrir listasöguna en líka mörg verk samtímans. Enda segir leikstjóri myndarinnar Céline Sciamma í viðtali að kvikmyndin sé hennar ‘manifesto on the male gaze’.

Ástin og myndmál hins háleitna

Það á ekki bara við um fornöldina heldur líka um samtímann, því nærtækasti samanburðurinn er vitaskuld franska kvikmyndin La Vie d'Adèle – Chapitres 1 & 2 (e. Blue is the Warmest Color) sem fjallaði um ástarsamband kvenna og sópaði að sér verðlaunum, meðal annars gullpálmanum, en var síðar gagnrýnd fyrir kynlífsenur myndarinnar sem þóttu helst líkjast klámi búnu til af gagnkynhneigðum karlmönnum fyrir aðra gagnkynhneigða karlmenn frekar en að endurspegla raunveruleika lesbía auk þess sem sem aðalleikonur myndarinnar ásökuðu leikstjórann um misnotkun á sér við tökur á téðum kynlífssenum.

Annað er uppi á teningnum hér og miðað við þær viðtökur sem ég hef lesið frá hinsegin gagnrýnendum þá þykir Céline Sciamma takast ætlunarverk sitt og gott betur því Portrait de la jeune fille en feu er sannarlega frábærlega vel gerð listræn kvikmynd sem tekst að fara ótroðnar slóðir í frásagnarmáta og nálgun á ástarsambandi kvenna um leið og hún fjallar um ástina á heimspekilegan og almennan hátt og notar hugvitsamlega vísanir í goðsöguna um Orfeus og Evridís, rómantískt myndmál hins háleitna (‘sublime) og tónlist Vivaldi. Portrait de la jeune fille en feu er feminísk kvikmyndagerð upp á sitt besta þar sem þögguð kvennamenning og saga fyrri alda er í forgrunni. Myndin ímyndar sér annan heim en þann sem okkur ber oftast fyrir sjónir, snýr upp á og brýtur á bak aftur sjónheim feðraveldisins.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Ljóðræn fegurð en langdregin og endaslepp

Kvikmyndir

Vítahringur ofbeldis sem erfist milli kynslóða

Kvikmyndir

„Ég vildi bara leggjast undir sæng og gleyma“

Kvikmyndir

Kvikmynd sem rís og hnígur líkt og togari í ólgusjó